135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:10]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson má eiga það að hann ræddi óvenju málefnalega um frumvarpið og án þess að hreyta ónotum í flutningsmenn þess, eins og aðrir hafa gert. Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að mér finnst að þeir sem tala gegn þessu frumvarpi — og þeir hafa fullan rétt á því — eigi bara að segja eins og hv. þm. Árni Þór sagði: Ég er á móti því að afnema einkasölu ÁTVR á sölu áfengis. Þá er það bara fínt. Þá eru komin mótrök við frumvarpinu, punktur. Menn þurfa síðan ekki að ræða aðra þætti málsins vegna þess að þá er yfirlýsing þeirra klár. Þeir eru á móti því að afnema einkasölu ÁTVR á áfengi. Ég virði þá skoðun. Ég er bara á móti þeirri skoðun og þannig standa málin.

Ég ætla ekki að gera einum eða neinum upp eitt eða neitt í skoðunum um hvaða samfélagsáhrif eitt eða annað hefur í þessu landi (Forseti hringir.) hvað slíkt varðar. Þetta er spurning um grundvallaratriði. Ég er á móti (Forseti hringir.) einkasölu ÁTVR. Punktur.