135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:11]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get staðfest að við hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir erum á öndverðum meiði í þessu efni. Það er reyndar ekki margt sem við erum ósammála um í lífinu en þó þetta. Ég staðfesti það bara að ég er andvígur því að afnema einkasölu ÁTVR á áfengi. Ég reyni að færa fyrir því fleiri rök en bara þau sem lúta að fyrirkomulagi einkasölunnar. Ég reyni að setja það í það samhengi að það hafi samfélagslegar afleiðingar í heilbrigðismálum sem mér finnst mikilvægt að Alþingi geri sér grein fyrir, sé meðvitað um og taki á málinu heildstætt og horfi líka á þann þátt málsins, hvað sem hv. flutningsmenn frumvarpsins kjósa að gera hér.