135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:12]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, að ég ætla ekki að eigna hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni það að vera ofstækisfullur bindindisfrömuður í ræðustól Alþingis, ég tel svo ekki vera. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er ofstækisfullur talsmaður ríkisrekstrar og hvort það er undirrót andstöðu hans við frumvarpið. Þó eru ýmsir þættir í máli hans sem ástæða er til að gera athugasemdir við eða varpa frekara ljósi á.

Þá mundi ég fyrst og fremst, ef við veltum fyrir okkur tveimur lykilþáttum í málinu, spyrja hv. þingmann: Telur hann að það séu alvarlegri afleiðingar af því fyrir almenning að neyta áfengis sem er selt af einkaaðilum en hinu opinbera? Í öðru lagi: Telur hv. þingmaður að sú stefna (Forseti hringir.) ÁTVR að auka aðgengi, bæta þjónustu, lengja opnunartíma, fjölga útsölustöðum sé af hinu illa?