135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:15]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á samkvæmninni í málflutningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Annars vegar vill hann hafa gott aðgengi og góða þjónustu í áfengisverslun og gerir ekki athugasemdir við fjölgun útsölustaða, lengdan afgreiðslutíma og bætta þjónustu ÁTVR. Hins vegar teldi hann ómögulegt að einkaaðilar veittu þessa þjónustu. Það er bara alveg ómögulegt. Honum er alveg sama og er bara hrifinn af því að þjónustan sé aukin og aðgengi aukið með fjölgun útsölustaða, lengingu opnunartíma og slíkum þáttum. Það er allt í lagi ef það er bara ríkið.

Þá falla að mínu mati um sjálf sig þau meginrök hv. þingmanns að stýra eigi neyslu og koma í veg fyrir neyslu áfengis eða draga úr henni með því að takmarka aðgengið. Mér finnst menn ekki geta með góðu móti sagt á sama tíma að þeir vilji hafa góða þjónustu og gott aðgengi en það verði bara að vera ríkið sem veiti þjónustuna en ekki einkaaðilar. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta brotalöm í málflutningi hv. þingmanns.