135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:17]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á því, vegna þess að mér finnst ekki nægilegt tillit tekið til þess í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að þetta er mjög varfærnislegt frumvarp. Það er gert ráð fyrir mjög skýrum og ströngum skilyrðum fyrir sölu á áfengi, hér eftir sem endranær, yrði þetta frumvarp samþykkt.

Það er tvítugsaldurstakmark við að afgreiða áfengi, sem leiðir til þess í praxís að við munum hafa afmarkaðar deildir í matvöruverslunum fyrir áfengi. Það er mjög lítil bylting i sjálfu sér frá því sem nú er. Aðgengi er mjög mikið. Eins og komið hefur fram er ÁTVR bara nokkuð góð verslun, sinnir áfengisverslun af mikilli einurð og festu og býður upp á gott aðgengi, í rauninni svo mikið aðgengi að ég held að Íslendingar geti keypt eins mikið áfengi og þeim sýnist, eins og ástandið er núna. Þar af leiðandi yrði lítil breyting í þeim efnum.