135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:18]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hv. þm. Guðmund Steingrímsson velkominn í þessa umræðu. Hann sagði að þetta væri varfærnislegt frumvarp. Já, það má út af fyrir segja að í frumvarpinu er gert ráð fyrir takmörkunum, það er gert ráð fyrir takmörkunum, sem er að vísu í andstöðu við málflutning hv. þm. Birgis Ármannssonar. Hann er á móti takmörkunum í þessu efni en leggur þær engu að síður til.

Ég er hins vegar… (Gripið fram í.) Ég er með orðið og það er takmarkaður tími í þessum andsvörum, virðulegur forseti. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þær takmarkanir haldi allar, t.d. þetta með aldursregluna í stórmörkuðunum. Hvernig ætla menn að framkvæma það í raun? Með eftirlitsmönnum? Hvaða? Eftirlitsmenn frá hinu opinbera eða hvað? Ég er ekkert sannfærður um að þessar takmarkanir haldi þegar á hólminn er komið.

Ég held að það fyrirkomulag sem við höfum búið við sé býsna gott. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði að þetta væru góðar verslanir með góðu vöruúrvali og allt eftir því (Forseti hringir.) og ég held að við eigum bara að halda okkur við það góða fyrirkomulag sem er við lýði í þessum efnum.