135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:22]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni veitti ekki af því að fá sér smáhressingu að þessum fundi loknum. Málflutningur hv. þingmanns hefur verið þannig að hann hefur snúist í marga hringi. Eftir því sem andsvörin verða fleiri snýst hann í fleiri hringi.

Hann hélt því hér fram í ræðu sinni, fyrirvaralaust, að aukið aðgengi að áfengi þýddi aukna neyslu. Samt sem áður talaði hann fyrir því að það væri hið besta mál að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins opnaði fleiri útibú og lengdi opnunartímann. Maður spyr: Er hv. þingmaður þá ekki samþykkur því að opnunartíminn verði lengdur enn frekar?

Ég er ekki viss um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að aukið aðgengi auki neyslu. Við vitum það og það kom fram í ræðu hv. þm. Þorvalds Ingvarssonar í gær, sem er læknir, að þar sem (Forseti hringir.) aðgengið er verst þar er neyslan mest, þ.e. á Grænlandi. Hvað segir hv. þingmaður við því?