135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:23]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kominn galsi í mannskapinn af einhverjum ástæðum. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að ég sé kominn í hringi í þessari röksemdafærslu í mínu máli. Ég er honum algjörlega ósammála um það efni og ég geri ekki ráð fyrir því að við verðum sammála um það.

Hins vegar vek ég athygli á því að hv. þingmaður, hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, dró það mjög í efa að aukið aðgengi mundi leiða til aukinnar neyslu. Ég held að í þeim gögnum og upplýsingum sem við höfum fengið, m.a. frá Lýðheilsustöð sem ég hef áður vitnað til, sé vakin athygli á því að margvíslegar rannsóknir hafi sýnt að aukið aðgengi þýði aukna neyslu. Mér finnst því sérkennilegt að þingmaðurinn haldi því fram að svo muni ekki verða. Það er athyglisvert og ég vek athygli á því að þingmaðurinn hélt þessu fram.