135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að afstaða hv. þingmanns til mála sem vísað er til nefndarinnar gildi um öll þau mál sem vísað er til nefndarinnar og þingmaðurinn beiti sér fyrir því að mál, m.a. frá stjórnarandstöðunni, komi ávallt úr þingnefndum en verði ekki svæfð þar. Við mundum fagna því ef sú stefnubreyting yrði í starfsháttum Alþingis af hálfu stjórnarmeirihlutans að þessu sinni.

Á síðustu átta árum hefur heildarneysla hreins vínanda á Íslandi aukist um liðlega 30%. Það er m.a. vegna breytinga sem hafa orðið á síðustu 15–20 árum. Aðilar eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggja áherslu á að ákveðnir hlutir hafi áhrif á neysluna, auki hana ef þeim breytt á tiltekinn hátt og minnki neysluna ef þeim er breytt á annan veg. Meðal þeirra atriða sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á er aðgengið og verðið sem hafi mikil áhrif á neysluna. Lækki verðið þá eykst neyslan. Ef aðgengi eykst þá eykst neyslan. Þetta er byggt á fjölmörgum rannsóknum í mörgum löndum.

Hv. þingmaður getur ekki komið upp og sagt: Ég held eða ég er á þeirri skoðun að þetta sé ekki rétt. Það er ekki boðlegur málflutningur af hálfu þeirra sem leggja þetta til, hafandi þessi gögn fyrir framan sig sem liggja fyrir á Alþingi og reyndar víðar ef þeir kæra sig um að sækja þau. Það er ekki boðlegt að koma og segja að breytingarnar muni ekki hafa þau áhrif sem þessar staðreyndir benda til. Það mun gerast, virðulegi forseti. Áfengisneysla mun aukast ef þetta verður að lögum og hvernig ætla hv. þingmenn að mæta því, auknum kostnaði, auknum útgjöldum ríkissjóðs og auknum vanda á heimilum landsins? (Forseti hringir.) Hvernig ætla hv. þingmenn að mæta afleiðingunum af því sem þeir leggja til?