135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:08]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru til fleiri skýrslur en um Finna.

Í sama plaggi og Lýðheilsustöð sendi frá sér nýverið um áfengisneyslu stendur m.a.:

„Í skýrslu sem skrifuð var fyrir Evrópusambandið árið 2006 kemur fram að áætlað sé að í Evrópusambandslöndunum drekki árlega u.þ.b. 58 milljónir fullorðinna óhóflega mikið áfengi, 23 milljónir þeirra séu háðir áfengi. Þar segir að árlegur samfélagslegur kostnaður vegna áfengis sé ætlaður 125 milljarðar evra, sem hlýst af alkóhólneyslunni. Kostnaðurinn birtist m.a. í samfélaginu í heild, heilbrigðis- og tryggingakerfinu og atvinnulífinu. Óhófleg áfengisneysla er árlega talin með einum eða öðrum hætti leiða til dauða 192 þúsund manns. Ungt fólk er í sérstakri áhættu og talið er að rekja megi 10% dauðsfalla kvenna og 25% dauðsfalla karla í aldurshópnum 15–29 ára til óhóflegrar neyslu áfengis.“

Þetta er skýrsla sem skrifuð var fyrir Evrópusambandið árið 2006. Í áfengispólitíkinni hvarvetna í kringum okkur eru heilbrigðisyfirvöld sífellt að kalla á hertara aðgengi að alkóhóli vegna þess að aukið aðgengi, lækkaður aldur og lækkað verð eykur áfengisneysluna og áfengisneyslan veldur mjög miklum (Forseti hringir.) þjáningum eins og ég nefndi og vísaði í skýrslu.