135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:31]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Umræður um þetta frumvarp hafa nú staðið í langan tíma og fram hafa komið ýmis sjónarmið og rök sem ég hefði gjarnan viljað taka undir og gera að mínum, m.a. hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Ýmis orð hafa fallið í þessari umræðu. Þannig sagði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir að hér væri um að ræða tillögu sem væri til hagsbóta fyrir neytendur. Og þá er spurningin: Hvaða neytendum er þetta frumvarp til hagsbóta? Er það fyrir neytendur almennt sem hafa ekki nægilegt aðgengi að áfengi eða er verið að tala um einhvern sérstakan hóp neytenda?

Aðrir hafa farið öðruvísi að málinu. Hv. þm. Karl V. Matthíasson fór hér með eldmessu og vísaði m.a. í Biblíuna þar sem hann fjallaði um það sem segir þar um áfengið. Það eru fleiri rit þar sem fram koma sjónarmið varðandi … (Gripið fram í.) ja, það segir hins vegar ekkert um hvaða styrkleiki var á víninu. Varla hefur verið um 22% þar að ræða. Þar sem hv. þm. séra Karl V. Matthíasson er kominn í salinn getur hann væntanlega upplýst síðar í umræðunni með hvaða hætti og hvernig það var. En þess skal getið að þar var verið að vísa í vísdómsorð sem kennd eru við Salómon varðandi áfengi en við norrænir menn eigum í vísdómsorðum okkar, Hávamálum, ekkert síðri atriði sem er vert að vekja athygli á. Þessi umræða hefur mikið snúist almennt um áfengisstefnu og með hvaða hætti og hvernig henni skuli hagað í þjóðfélaginu og því fannst mér í kjölfarið á því sem hv. þm. Karl V. Matthíasson benti á vert að benda á það sem sagt var í árdaga norrænnar menningar um áfengi. Í Hávamálum segir m.a.:

Byrði betri

ber-at maður brautu að

en sé manvit mikið,

— [besta veganestið sem menn geta haft er að hafa mannvit mikið] —

vegnest verra

vegur-a hann velli að

en sé ofdrykkja öls. — [Þ.e. undir 22%.]

Á öllum tímum hafa menn gert sér grein fyrir þeim vandamálum sem þessari neysluvöru fylgja.

Eins og bent hefur verið á, m.a. af flutningsmönnum þessa frumvarps, er hér um að ræða neysluvöru sem er inngróin í samfélag okkar og verður ekki frá því skilin svo vel sé, kannski því miður en þannig er það.

Það er fleira sem segir í Hávamálunum varðandi þetta atriði:

Því að færra veit

er fleira drekkur.

Og áfram mætti halda en ég ætla að láta hjá líða að vísa að öðru leyti í vísdómsorð sem norrænir menn hafa fylgt í gegnum aldirnar, ekkert síður en þeim vísdómsorðum sem séra hv. þm. Karl V. Matthíasson vísaði til, en það er annað mál.

Það sem hins vegar kemur mér á óvart varðandi þetta frumvarp til laga þar sem fjallað er um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem varða sölu á áfengi — það er nú ekki verið að fjalla um tóbak þótt það sé fjallað um þá löggjöf í heild — er að ekki kemur fram nein viðmiðun, nein hugrenning, engin sjónarmið um það hvaða áfengisstefnu eigi að miða við. Til upprifjunar fletti ég upp á og fann frumvarpið sem var flutt á 110. löggjafarþingi, 42. mál, árið 1987, fyrir réttum 20 árum, sem var kallað bjórfrumvarpið. Í því frumvarpi var vísað til þess hver tilgangur flutningsmanna væri með því að flytja það frumvarp. Tilgangurinn var nefndur í fimm liðum:

„1. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja,

2. að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar,

3. að afla ríkissjóði tekna,

4. að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum,

5. að samræma áfengislöggjöfina.“

Þetta voru viðmiðin.

Síðan segir á öðrum stað í greinargerð með þessu frumvarpi sem var flutt fyrir 20 árum:

„Flutningsmenn telja, miðað við reynslu annarra þjóða, að til þess geti komið að heildaráfengisneysla á hvern íbúa aukist eitthvað við tilkomu áfengs öls, án þess þó að það valdi aukinni ölvun eða drykkjusýki. Hér skiptir miklu máli að móta ákveðna áfengisstefnu og freista þess með verðstýringu að beina áfengisneyslu inn á þær brautir sem taldar eru skaðminnstar.“

Síðan er á öðrum stöðum í greinargerðinni vísað til þess hvaða þýðingu það hafi, annars vegar spurningin um aðgengi, þ.e. takmarkað aðgengi að áfengi, og nota verðstýringu til að takmarka neyslu.

Sá er meginmunur á því frumvarpi sem ég var að vísa til og var flutt fyrir 20 árum, kallað bjórfrumvarpið, og varð með breytingum að lögum að þar voru flutningsmenn sér meðvitaðir um að þarna væri um vöru að ræða þar sem væru gríðarlegir hættueiginleikar sem valda verulega mörgum í þjóðfélagi okkar tjóni. Hitt var annað mál að það var ekki eðlilegt að skilja frá veikasta hlutann en leyfa þann sterkasta.

Munurinn er sem sagt sá að þar lögðu flutningsmennirnir áherslu á hvað yrði að gera og hvernig yrði að bregðast við til að koma í veg fyrir þær hættur sem gætu leynst í því yrði frumvarpið að lögum. Þarna fluttu ábyrgir þingmenn frumvarpið á þeim tíma, þ.e. Jón Magnússon, Geir H. Haarde og Guðrún Helgadóttir, (Gripið fram í.) og lögðu megináherslu á að mótuð yrði áfengisstefna af Alþingi Íslendinga til að bregðast við. Þó að við þyrftum að viðurkenna ákveðnar staðreyndir í sambandi við þjóðfélag okkar og um þá neyslu sem hér er um að ræða væri það samt sem áður skylda löggjafans að bregðast við til þess að draga úr hættueiginleikunum, gera sem minnst úr því sem þó þetta athæfi veldur.

Frjálslynt fólk vill almennt leyfa borgurunum að hafa sína hluti í friði fyrir sig, þess vegna sína lesti svo fremi sem það valdi ekki öðrum vandamálum, valdi ekki þjóðfélagsvandamálum. Þar af leiðandi er ýmislegt leyft sem ella væri ástæða til að banna vegna þess að flestir geta fallist á að það er þjóðfélagslega óæskilegt en samt sem áður verður að virða frelsi einstaklingsins, jafnvel til að gera óæskilega hluti. Spurningin er bara um markalínuna.

Varðandi það atriði hvernig við drögum mörkin og hvernig við höfum þessa hluti höfum við markað þá stefnu að takmarka aðgengi með því að selja áfengi á afmörkuðum útsölustöðum og beitt verðlagningu til þess enn fremur að takmarka, þó að hlutfallslega hafi áfengi lækkað í verði.

Það sem ég sakna í þessu frumvarpi til laga sem hv. flutningsmaður Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri flytja er að hvergi í greinargerð með frumvarpinu er í raun vikið að nauðsyn þess að móta áfengisstefnu. Af því að mótvægisaðgerðir eru nú vinsælt orð tek ég eftir að hvergi er talað um það, ef frumvarp þetta yrði að lögum, til hvaða aðferða og aðgerða ætti að grípa til þess að koma í veg fyrir að um verulega aukningu á heildarneyslu áfengis eða vínanda yrði að ræða. Það væri eðlilegt að menn veltu því fyrir sér af því að þarna er ekki um venjulega neysluvöru að ræða, svo sem flestir sem hér hafa talað í umræðunni um þetta mál hafa vikið að. Þetta er ekki venjuleg neysluvara, heldur vara sem býr yfir ákveðnum skaðlegum eiginleikum.

Síðan er annað mál að þetta frumvarp er ófullburða. Það er mjög gallað. Það er dálítið merkilegt að það skuli líta svona út sé það skoðað að það hefur verið flutt hvað eftir annað, á 130., 131., 132. og 133. löggjafarþingi. Nú er það flutt á 135. löggjafarþingi þannig að það er flutt hér í fimmta sinn.

Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér spurningunni af hverju sú leið er valin að miða við að það megi selja áfengi að styrkleika allt að 22% af vínandarúmmáli í verslunum, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Af hverju miða þau við þá prósentutölu? Af hverju ekki 19% eða 27%? 22% dettur einhvern veginn af himnum ofan ef miðað er við vegna ákvæða í öðrum lögum. Þá velti ég líka fyrir mér, ef á annað borð er verið að setja áfengi inn í verslanir, af hverju þá ekki allt áfengi? Það býr jú yfir sömu skaðlegu eiginleikunum og veldur sjálfsagt sömu sælutilfinningunni hjá sumum sem þess neyta. Mér finnst þetta verulegur galli á frumvarpinu, það í raun kemur ekki almennileg skýring á þessu atriði.

Í annan stað er í frumvarpinu, greinargerðinni og í 10. gr. talað um að afgreiðslutími skuli ekki vera lengur en til klukkan 20. Það er í sjálfu sér gott og blessað. En hvenær má opna vínbúðirnar? Það er hvergi fjallað um það. Ef áfengisútsölunum er lokað klukkan 20, má þá opna þær klukkan 00:01? Það er sem sagt hvergi nokkurs staðar vikið að því með einum eða öðrum hætti hvort vínbúðir verði þá opnar nánast alla nóttina, bara að þær skuli loka fyrir 8 að kvöldi.

Líka hefði þurft að vera í þessu frumvarpi ákvæði um það, fyrst verið er að velta fyrir sér að færa sölu á áfengi inn í almennar verslanir, að þá yrði ekki gerður neinn greinarmunur á því um hvaða verslanir geti verið að ræða. Einn sem hafði sömu hugsjón og flutningsmenn þessa frumvarps var þó alltaf með ákvæði í sínum frumvörpum um að aldrei yrði tekið undir áfengisframboð nema tiltekið hlutfall af hilluplássi viðkomandi verslunar. Í sjálfu sér væri eðlilegt að hafa einhverja slíka stefnumörkun en engin slík stefnumörkun er í þessu frumvarpi.

Hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, Sigurður Kári Kristjánsson, sem er 8. þingmaður Reykv. n. gæti velt fyrir sér hvort hv. þm. Ellert B. Schram sem er 11. þm. Reykv. n. gæti ekki bara haft það mjög huggulegt og látið sér detta í hug þegar hann væri að steikja lambakóteletturnar að rölta út í Melabúðina til að fá sér svona eins og eina rauðvín. Þá gætu þeir nágrannarnir, hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps og örlítið fyrr í röðinni í Reykv. n. og hinn, hist úti við Melabúðina þar sem annar fær sér hvítvín með fiskinum og hinn rauðvín með steikinni, rætt um stjórnarsamstarfið og horfur í málefnum stjórnar Reykjavíkur og önnur þjóðmál um leið og þeir velja sér einhver úrvalsvín af þessu mikla og rúma hilluplássi Melabúðarinnar sem yrði þá sjálfsagt að fórna sviðahausunum fyrir áfengið. Þetta er einhver svona rósrauð, rómantísk hugsun um það með hvaða hætti þetta á að vera.

Með sama hætti og hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps nefndi að menn gætu farið í fiskbúðina til þess að kaupa eitthvert eðalhvítvín til þess að hafa með fiskinum (Gripið fram í.) gætu menn þess vegna farið í bókabúðina til að fá sér eitthvert popprit til að lesa með skáldsögunum og þar fram eftir þeim götunum. Eða þá að í byggingavöruverslunum væri (Gripið fram í.) hólf fyrir smíðavín til að menn hittu betur naglana á höfuðið. (Gripið fram í.) Þannig eru menn komnir út í hugmyndir og öfgar sem eru alveg umfram allt sem þekkist varðandi sölu og meðferð áfengis í hinum vestræna heimi, þó að víða séu mjög rúmar reglur.

Ef menn eru að tala um menningu varðandi áfengi og ef menn eru að tala um að hér geti verið eðalvín á boðstólum gerist það ekki með því að vera með einhver plastpakkavín í kjörbúðum heldur þá með því að hafa sérgreindar sérstakar vínbúðir þar sem fólk sem hefur sérþekkingu á þeim atriðum getur leiðbeint þeim sem vilja kaupa þessa neysluvöru. Þannig geta menn byggt upp og búið til eitthvað sem var sagt hér í umræðunni að væri vínmenning en aðrir tala um að sé raunar ekki til. Ætla ég ekki að hætta mér út í þá umræðu. En menn gera það ekki með því að færa þetta út í almennu verslunina. Það er einfaldlega þannig að aðgengi að áfengi á Íslandi er orðið mjög mikið. Það er orðið mjög gott og það er jafnvel orðið yfirdrifið. Það er allt of mikið. Það væri meira spurning um að velta fyrir sér með hvaða hætti og hvernig áfengisstefna þessarar þjóðar ætti að vera til þess að við hefðum betri tök á þeim vandamálum sem eru að skapast vegna áfengisneyslu þjóðarinnar.

Ég lít þannig á að takmarkað aðgengi hafi þýðingu, t.d. með því að afgreiðslutími veitingastaða, útsölutími áfengisverslana og annað, væri skemmri en hann er í dag. Það er eitt af því sem mér finnst skipta máli en ekki það að færa þetta út í það að almennar verslanir gætu haft opna áfengissölu alla vikuna allt árið nema á milli klukkan 20 og 24 á hverjum sólarhring eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi hv. flutningsmanna. Verðlagningin á alkóhóllítranum og aðgengið eru höfuðatriðin í því með hvaða hætti og hvernig menn takmarka neysluna.

Nú reikna ég með, og ég er ekki að gera lítið úr því, að flutningsmönnum gangi gott til miðað við skoðanir sínar og hugsjónir. Þau eru áreiðanlega trú þeim sjónarmiðum og telja að þau geti einhverjum hlutum til betri vegar komið þó að ég átti mig ekki á því hvaða hlutir það gætu verið. En það kemur kannski skýring á því síðar í þessum umræðum. Það er hins vegar einfaldlega þannig að við höfum vaxandi vandamál í öllum þeim löndum þar sem aðgengi að áfengi hefur verið aukið. (Gripið fram í.) Enda höfum við vaxandi vandamál. Vandamál Breta hafa aukist gríðarlega vegna aukins aðgengis að áfengi. Sumir vilja að vísu kenna um langvarandi stjórn Verkamannaflokksins í því landi. En það hefur þó verið þannig að eftir að lokunartíma var aflétt í Bretlandi þannig að það er hægt að kaupa þar áfengi hvenær sem er sólarhringsins hefur heildarneysla þar vaxið gríðarlega mikið til mikils tjóns. Það er talað um að fleiri og fleiri hópar eigi í vandræðum, m.a. er talað um að meðalævi breskra kvenna hafi styst vegna þessa og að munurinn á lífslíkum karla og kvenna hafi minnkað úr tæpum átta árum í tæp fjögur ár, eingöngu vegna aukinnar áfengisneyslu kvenna. Það er talað um að um 40% kvenna sem neyta áfengis í óhófi hafi reynt að fremja sjálfsmorð og 35% kvenna sem kæra nauðgun í Bretlandi voru undir áhrifum áfengis, þar af 70% þeirra það drukknar að þær gerðu sér ekki grein fyrir því hvort samfarir hefðu átt sér stað eða ekki. Einungis var refsað í 5% tilvika þegar þessar konur kærðu. 51 þús. konur urðu að leggjast inn á spítala árið 2005 í Bretlandi vegna áfengisneyslu og dauði kvenna vegna lifrarbólgu í Bretlandi hefur aukist frá 1950 um 250%. Lýðheilsustöðin þar í landi segir að þetta sé vegna aukins aðgengis.

Þess vegna er ég á móti (Forseti hringir.) því frumvarpi sem hér um ræðir og tel þó þinglega afstöðu að greiða fyrir því að málið komi til nefndar. Það er allt annað mál þó að ég sé hins vegar á móti frumvarpinu.