135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf við Norðmenn og Dani á sviði öryggismála.

104. mál
[13:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Í apríl í ár gerði Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, samstarfssamning á sviði öryggismála, varnarmála, viðbúnaðar, leitar og björgunar við Norðmenn og Dani. Þetta er rammasamkomulag sem ég tel vera mjög spennandi. Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað líður því að fylla inn í þennan ramma?

Bandaríkjamenn fóru af landi brott í september í fyrra og við það breyttist staða varnarmála hjá okkur. Ég vil líka draga það fram að Rússaflug hófst fyrir ekki mjög löngu þannig að það er margt að gerast í nánasta umhverfi okkar og við þurfum að fylgjast vel með. Við sjáum líka að til framtíðar mun flutningur á olíu stóraukast. Talið er að árið 2015 muni um 500 flutningaskip fara hér í kringum landið með þúsund tonn af olíu hvert. Það eru því margar ógnir sem steðja að okkur, bæði hernaðarlegar og ekki síður umhverfislegar.

Við vitum líka að mörg skemmtiferðaskip sigla í kringum okkur og hvað gerum við ef eitt slíkt sekkur? Þá þurfum við að hafa hér viðbúnað. Við tókum þessi mál upp við utanríkisnefnd norska stórþingsins, sem var hér í fyrradag, en þeir hafa mikinn áhuga á þessu rammasamkomulagi eins og við á hinu háa Alþingi. Ég tel mikilvægt að við fáum að heyra hvað hæstv. ráðherra er að gera varðandi þetta samstarf. Ég veit að fundur var haldinn í utanríkisráðuneytinu fyrir stuttu með Norðmönnum þannig að málið er á hreyfingu en það er alveg ljóst að það er eðlilegt að þingið fái að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um hennar viðhorf til hugmynda Björns Bjarnasonar, hæstv. dómsmálaráðherra, en hann hefur talað um að mynda eigi eitthvað sem heitir á ensku Multilateral North Atlantic Coastguard Forum og hefur tilkynnt það í ræðum bæði í Noregi og hér á NATO-þinginu. Er þar væntanlega átt við eins konar samstarf á milli landhelgisgæslna landanna sem t.d. eru drifnar af hernaðarmætti í Noregi og Danmörku. Ekki eru sambærilegar stofnanir til á Íslandi af því að við erum ekki með her. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni lítist á þær hugmyndir og hvort utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti eru í sérstöku samstarfi varðandi það að fylla út í þann góða rammasamning sem gerður hefur verið.