135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var dálítið ringluð í upphafi þegar ég skoðaði þetta mál hvort það heyrði undir dómsmálaráðherra eða samgönguráðherra. Niðurstaðan varð sú að spyrja samgönguráðherra út í það vegna þess að þarna er vissulega um að ræða umferðarlög sem við erum fjalla um. Engu að síður erum við líka að ákveðnu leyti að fjalla um framkvæmd þeirra laga af lögreglunni sem aftur heyrir undir dómsmálaráðherra. Þetta er því má segja margrætt mál.

Ástæða þess að ég legg þessa fyrirspurn fram, virðulegi forseti, um verklagsreglur við þvagsýnatöku, er mál sem kom upp í fjölmiðlum í sumar og gerðist síðastliðið vor þar sem slíkt sýni var tekið með valdi úr konu sem grunuð var um að hafa brotið umferðarlög með því að aka undir áhrifum vímugjafa. Málið vakti upp margar spurningar og má t.d. nefna að í tengslum við alla þá umræðu sem þá átti sér stað voru fjölmargir kallaðir til að gefa álit á því og þeir töldu að vera þyrftu samræmdar verklagsreglur í svona málum fyrir landið allt en slíkar reglur eru ekki í dag.

Sigurbjörn Sveinsson, þáverandi formaður Læknafélagsins, kallaði t.d. eftir því að slíkar verklagsreglur væru settar. Bogi Nilsson ríkissaksóknari sagði í fjölmiðlaviðtali að hann teldi gott að setja reglur fyrir blóð- og þvagsýnatöku sem giltu fyrir allt landið og sömuleiðis Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum en hún kom að sjálfsögðu inn í þetta mál. Ég tek undir það með Sigurbirni Sveinssyni, fyrrverandi formanni Læknafélagsins, að ég tel að þarna hafi verið beitt ofbeldi með ákveðnum hætti vegna þess að maður getur rétt ímyndað sér stöðu sem er uppi þegar þvingunum er beitt við þvagsýnatöku. Slíkt er ávallt mjög vandmeðfarið. Mér þótti líka mjög áhugavert að heyra Sigurbjörn, sem er læknir, greina frá því í fjölmiðlaviðtali að ekki þurfi að beita þvingun við töku þvagprufu þrátt fyrir að einstaklingurinn neiti að veita hana vegna þess að þvagið komi á endanum og þótt efni geti vissulega þynnst í þvagi þegar beðið er með prufu sé hins vegar hægt að reikna út áfengis- og vímuefnamagn aftur í tímann og t.d. finna út hver neyslan hafi verið.

Virðulegi forseti. Sömuleiðis finnst mér áhugavert að umboðsmaður Alþingis hefur að eigin frumkvæði tekið þetta mál upp til athugunar sem sýnir okkur að hugsanlega var þarna eitthvað bogið á ferðinni. Ég tel mjög mikilvægt að við skoðum svona verklagsreglur og er meira að segja fylgjandi því að við bönnum þvingaðar þvagsýnatökur og tel að menn verði að skoða það í tengslum við verklagsreglugerð.