135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:50]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir beinir til mín fyrirspurn um verklagsreglur við töku þvagsýna sem hér hefur verið lesin upp. Ég vil taka það skýrt fram í upphafi að ég tel afar brýnt að setja samræmdar reglur um töku þvagsýna. Breytingar á umferðarlögum frá 2003 gera beinlínis ráð fyrir að reglur verði settar um töku sýna og rannsóknir vegna meintra ölvunarakstursbrota og aksturs undir áhrifum fíkniefna.

Ég hef nýlega skipað nefnd á vegum samgönguráðuneytisins sem ætlað er að setja reglugerð á grundvelli þessa ákvæðis umferðarlaga, þ.e. 4. mgr. 47. gr. umferðarlaga. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Rannsóknastofnun í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands, embætti ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Selfossi.

Ég vil taka fram í ljósi þess máls sem er kveikjan að þessari umræðu að það er lykilatriði að gætt verði að virðingu og mannlegri reisn við framkvæmd slíkrar sýnatöku. Það er grundvallaratriði. Ég tel jafnframt nauðsynlegt að huga sérstaklega að því að tryggja lögreglumönnum og starfsfólki heilbrigðisstofnana öruggt starfsumhverfi í þessum efnum og skýran lagaramma.