135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka það ágæta svar frá hæstv. ráðherra að hann telji að setja eigi samræmdar verklagsreglur og sömuleiðis að skipuð hafi verið nefnd sem er þegar farin að vinna í því.

Ég var líka ánægð með það viðhorf sem hann sýndi varðandi þetta einstaka mál vegna þess að auðvitað kemur það inn í umræðuna að umgangast þarf fólk þannig að það haldi reisn sinni, sama hvað gerst hefur. Og einnig að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna sé öruggt, ég tek svo sannarlega undir það.

Mér þótti dálítið áhugavert að hlusta á hv. þm. Þorvald Ingvarsson um að þetta inngrip hafi í raun og veru verið ónauðsynlegt. Þar tekur hann undir það sem áður hefur komið frá Sigurbirni Sveinssyni, fyrrverandi formanni Læknafélagsins, og líka að það geti beinlínis verið hættulegt. Það hefur einnig komið fram hjá öðrum læknum sem rætt hefur verið við í tengslum við þetta mál. Ég vildi líka nefna hér Ófeig Þorgilsson, sem er yfirlæknir á slysadeild Landspítalans, en við hann var talað í tengslum við þetta mál í fréttum sjónvarpsins 21. ágúst í sumar. Hann var spurður að því hvort þau hefðu einhvern tímann lent í sömu aðstæðum þar og sagðist hann muna eftir einu tilviki þegar læknir neitaði hreint og beint að taka slíkt sýni. Við eigum ekki heldur að koma heilbrigðisstarfsmönnum í svona aðstæður. Ég fagna því að verklagsreglur verði settar og ég vona að á það verði hlustað að hugsanlega sé þetta ónauðsynlegt og hættulegt og því verði það sett í reglurnar að svona eigi ekki að fara að.

Aðeins vegna ummæla hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þá vil ég líka draga það fram í umræðu um þetta mál að í 102. gr. umferðarlaga stendur að neiti stjórnandi vélknúins ökutækis að veita atbeina sinn við rannsókn máls þá skuli svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár. Því eru í raun og veru viðurlög við því að veita ekki slík sýni.