135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

strandsiglingar.

96. mál
[14:05]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta mál skuli tekið upp af hv. þm. Magnúsi Stefánssyni. Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið lögð mikil áhersla á strandsiglingar undanfarin ár. Frá mínum bæjardyrum séð er þar á ferðinni afar mikilvægt umhverfismál. Ljóst er að flutningar á vegum hafa stóraukist, þungaflutningar eru taldir valda um 90% af sliti á þjóðvegum landsins.

Þetta er hins vegar meðvituð stefna sem hefur verið í gangi mörg undanfarin ár og ljóst er að þungaflutningar eru niðurgreiddir í samanburði við sjóflutninga. Samkeppnisstaða sjóflutninga er þar af leiðandi skökk. Það má auðvitað ræða um hvaða vörur henti til sjóflutninga og hvaða vörur ekki. Það er umræða sem má fara fram síðar en ég vil benda á að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gert ítarlega úttekt á hagkvæmni sjóflutninga fyrir Hafnasamband sveitarfélaga. Hún er ekki mjög gömul og ég skora á hæstv. samgönguráðherra að kynna sér hana vel. Ég vonast til að það geti orðið góð samstaða í þinginu um þetta mál.