135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

strandsiglingar.

96. mál
[14:06]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Hér hefur ekki verið minnst á sjóflutninga á olíu og bensíni. Það er gott fyrir ykkur, ágætu þingmenn sem eruð hér í Reykjavík, að taka eftir að í gegnum miðbæ Reykjavíkur keyra olíubílar með bensín og olíu í miklum mæli. Þeir flutningar fara gegnum miðbæ Reykjavíkur. Það hlýtur að vera mjög freistandi fyrir menn að skoða þann lið.

Það er óviðunandi að í gegnum miðbæ Reykjavíkur skuli bæði bensín og olía flutt en sem betur fer er slíkur flutningur á flugbensíni hættur. Menn sigla með það til Helguvíkur. Aðrir bensín- og olíuflutningar fara allir í gegnum miðbæ Reykjavíkur og ég hvet menn til að skoða það sérstaklega varðandi bensín- og olíufarma að farið verði með þá í tanka og geymslur þar sem til að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) slysahættu sem getur skapast.