135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:14]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Nú 3. október var opnað endurnýjað fangelsi á Kvíabryggju og fjölgað þar um rými úr 14 í 22. Um áramótin verður opnað endurgert og stórbætt fangelsi á Akureyri. Á fjárlögum er gert ráð fyrir því að á næsta ári verði selt land sem tilheyrir Litla-Hrauni og andvirðið notað til að hefja uppbyggingu á Litla-Hrauni. Þetta er allt í samræmi við áætlun sem hefur verið gerð og unnið er samkvæmt og lokastig þeirrar áætlunar er að reisa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Það mál er í þarfagreiningu og beðið er eftir niðurstöðum og skýrslum í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir. Síðan kemur að því að taka ákvörðun um hvort fara eigi í nýbygginguna og hvort það eigi að ræða og skoða einkaframkvæmd við að reisa þetta fangelsi. Mér finnst að það eigi að skoða gaumgæfilega.

Ég tel einnig að það eigi að skoða ýmsa grunnþætti í rekstri slíks fangelsis. Ég hef reynslu af því að standa að slíkri einkaframkvæmd í Iðnskólanum í Hafnarfirði þar sem bæði var boðin út bygging og einnig grunnrekstrarþættir í skólastarfinu, án þess að það væri farið í kennsluna sjálfa eða þá þjónustu sem nemendur fá, þ.e. mötuneyti, hreinsun, ræsting og aðrir slíkir hlutir sem sjálfsagt er að skoða.

Hitt verða menn líka að hafa í huga þegar rætt er um stamstarf við einkaaðila, þ.e. meðferð fyrir fanga eða leiðir fyrir þá út í samfélagið. Um langt árabil hefur verið mjög gott samstarf við einkaaðila eins og Vernd og fleiri sem hafa tekið á móti föngum inn á áfangaheimili og búið undir að fara aftur út í þjóðfélagið þannig að fangelsiskerfið hefur í sjálfu sér mjög góða reynslu af samvinnu við einkaaðila sem felst í að búa föngum ákjósanlegt umhverfi. Allar meðferðir og þjónusta af því tagi er unnin af einkaaðilum ekki síður en af opinberum aðilum. Í því tilliti höfum við reynslu. Að bera þetta saman við Bretland eða Bandaríkin er að bera saman epli og appelsínur eins og kemur fram í skýrslunni sem hv. þingmaður nefndi. Það kemur hvað eftir annað fram að kúltúrinn, ef ég má orða það svo, í rekstri fangelsa í Bretlandi er allt annar en hér, svo ég tali ekki um Bandaríkin.

Þegar litið er á fjölda fanga þá er fjöldi fanga hér einna minnstur, af öllum þjóðum sem við berum okkur saman við. Það er himinn og haf á milli fjölda fanga hér annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar. Við höfum allt annað fyrirkomulag og annað kerfi en þær þjóðir sem nefndar voru til sögunnar. Raunar hefur í ríkari mæli verið farið inn á þá braut að veita þeim sem hafa verið dæmdir tækifæri til þess að taka út refsingu sína í samfélagsþjónustu. Það er á valdi Fangelsismálastofnunar að taka ákvarðanir um slíkt. Þegar það mál var rætt á þingi var m.a. rætt um hvort valdið ætti að vera hjá Fangelsismálastofnun eða í höndum dómara. Niðurstaðan varð sú að Fangelsismálastofnun tekur ákvarðanir um það hvort menn taki út refsingu, t.d. í samfélagsþjónustu. Sá þáttur í refsivörslu er ríkari en í mörgum löndum.

Allt þetta verður að hafa í huga þegar rætt er um fangelsismál á Íslandi, fyrir utan þá breytingu sem orðið hefur í innra starfi fangelsanna og hv. þingmaður vék að með lofsamlegum orðum.

Ég tel að við séum á réttri braut í þessu. Það er búið að ræða um það í 40 ár að reisa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Í 40 ár hafa þingmenn talað um þetta mál og árið 2001 stóðu yfirvöld frammi fyrir því hvort fara ætti í einkaframkvæmd eða annars konar framkvæmd. Þá sagði fjármálaráðuneytið að málið væri ekki nægilega vel undirbúið til þess að fara í einkaframkvæmd.

Ég tel að þegar þeim athugunum öllum er lokið sem er unnið að núna getum við staðið frammi fyrir góðum áætlunum sem gefa okkur færi á að taka ákvörðun um hvort við höfum þetta opinbera framkvæmd eða einkaframkvæmd. Ég vona sannarlega að hér fáist stuðningur við að ráðast í þessar framkvæmdir.