135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:22]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir taka undir þakkir til fyrirspyrjanda, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, fyrir þessa fyrirspurn og kannski spyrja þá hæstv. dómsmálaráðherra í þessu samhengi, vegna þess að mér fannst það ekki koma glöggt fram í svari hans við fyrirspurninni, um Hegningarhúsið á Skólavörðustíg sem er rekið á undanþágu. Ég þekki það mætavel því ég var formaður umhverfisráðs Reykjavíkur þegar síðast var veitt undanþága, framlenging fyrir starfsemi hússins þar og átti þess kost að fara ásamt starfsfólki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í heimsókn og skoða þau húsakynni. Eftir þá umfjöllun og svör sem við fengum frá dómsmálaráðuneytinu var fallist á það, með semingi þó, að framlengja starfsleyfi Hegningarhússins við Skólavörðustíg til 2009 og þá lágu fyrir vilyrði eða loforð frá ráðuneytinu um að nýtt fangelsi yrði reist fyrir þann tíma á höfuðborgarsvæðinu. Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé ekki öruggt að svo verði.