135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur um björgunarmál og almannavarnir.

105. mál
[14:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að með brotthvarfi bandaríska hersins hefur skapast nýtt svigrúm til nánara samstarfs við önnur nágrannaríki. Það má segja að brotthvarf hersins hafi orðið til þess að við höfum tekið ákveðið frumkvæði að samstarfi, mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra hafi gert það. Og það er að mínu mati mjög gott. Ég tel að við eigum að vera í mjög öflugu samstarfi við nágrannaríki okkar um öryggis- og varnarmál.

Komið hefur fram að bæði Landhelgisgæslan og lögreglan hafa átt mjög gott samstarf við systurstofnanir sínar og það mun að sjálfsögðu halda áfram. Ég verð samt að ítreka að ef eitthvað kemur upp á sem lýtur sérstaklega að björgunarmálum er alveg ljóst að þó að tilhneiging sé til þess að borgaraleg yfirvöld komi að þeim þá stendur herinn að verulegu leyti að slíkum verkefnum í hinum löndunum.

Ég vil einnig spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því sem ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að hér áðan: Hvaða ferli fer í gang ef hér verður mjög stórt slys, ef hér sekkur olíuflutningaskip eða farþegaskip með mörg þúsund manns? Hvernig yrðu viðbrögð af okkar hálfu? Við gætum væntanlega ekki bjargað þessu öllu sjálf. Við yrðum að fá utanaðkomandi aðstoð. Er það dómsmálaráðherra sem tekur það frumkvæði og hefur samband við aðrar stofnanir erlendis? Eða er það utanríkisráðuneytið eða hvaða ferli fer þá í gang?