135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

endurgreiðsla virðisaukaskatts.

112. mál
[14:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Þessum málum er þannig háttað í dag í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt að opinberum stofnunum er endurgreiddur virðisaukaskattur af margvíslegri þjónustu sem þær kaupa. Er þar fyrst og fremst um að ræða þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu. Auk þess má nefna sorphreinsun, ræstingu og snjómokstur.

Þessar endurgreiðslur ná jafnt til ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra og hafa þær aukist verulega á síðustu árum. Þetta fyrirkomulag um endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila á sér sögulegar skýringar. Þær miða að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val þeirra sem stunda starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts um það hvort þeir kaupa A-þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi. Ákvæðum laganna er þannig ætlað að tryggja að reglur um virðisaukaskatt leiði ekki til röskunar á samkeppni á markaði.

Á undanförnum árum hefur það verið álitamál hvort æskilegt væri að draga úr eða auka þessar endurgreiðslur virðisaukaskatts. Á það hefur verið bent af hálfu hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að óheppilegt sé að virðisaukaskattur á ýmsa aðkeypta þjónustu, sem talin hefur verið eðlilegur liður í innri starfsemi fyrirtækja og stofnana, fáist ekki endurgreiddur þar sem ekki er um aðkeypta sérfræðiþjónustu að ræða. Þar sé í mörgum tilvikum um að ræða þjónustu sem samkeppni ríkir um á markaði. Dæmi um slíka þjónustu sem ekki er endurgreiðsluhæf er umsjón mötuneyta, færsla bókhalds og ýmis rafræn gagnavinnsla og tölvuþjónusta.

Til að bregðast við þessari gagnrýni og í samræmi við útvistunarstefnu ríkisins er nú innan fjármálaráðuneytisins unnið að gerð verklagsreglna fyrir ríkið sem ganga út á það að ríkisstofnunum verði gert kleift að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af þjónustu sem keypt er af tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum. Í dag er opinberum aðilum endurgreiddur virðisaukaskattur vegna kaupa á hugbúnaðargerð og forritun. Hins vegar hefur endurgreiðsluheimildin ekki verið talin ná til vinnslu, skráningar og daglegs reksturs tölvukerfa. Með verklagsreglunum verður tryggt að ríkisstofnanir fái endurgreiddan virðisaukaskatt af kaupum á slíkri þjónustu.

Að fenginni reynslu af þessum verklagsreglum verður tekin afstaða til þess hvort ástæða sé til að útvíkka endurgreiðsluheimildina yfir á fleiri þjónustuþætti. Ég vil leyfa mér að vona að reynslan verði góð þannig að þeir þættir sem hv. fyrirspyrjandi spurði um geti í framtíðinni fallið undir verklagsreglur sem þessar og það styrki og ýti undir útvistunarstefnu ríkisins.