135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur Ingvarsson) (S):

Herra forseti. Notendur heilbrigðisþjónustu á Íslandi eru skilgreindir sem sjúklingar og eiga lögum samkvæmt rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Inntak sjúkratrygginga sem greiddar eru af almannafé og er ætlað að jafna aðgengi þegnanna að heilbrigðisþjónustu, er óljóst, breytilegt og háð úthlutunum stjórnmálamanna í gegnum fjárlög.

Á undanförnum árum hefur borið á megnri óánægju sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks með þann frumskóg af reglum og reglugerðum sem stýra eiga heilbrigðistryggingakerfi okkar. Borið hefur á því að fólk þekki ekki rétt sinn og heilbrigðisstarfsfólk hafi ekki undan við að læra á kerfið og eigi í raun erfitt með að leiðbeina sjúklingum um rétt sinn. Þar að auki þurfa sjúklingar að útvega sér vottorð á vottorð ofan frá læknum um ólíklegustu atriði til að njóta réttar síns.

Ég beini því þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi í hyggju að stofna embætti umboðsmanns sjúklinga. Viðkomandi umboðsmaður mundi hafa eftirlit með að lög um almannatryggingar tryggi á hverjum tíma rétt hinna sjúkratryggðu og að jafnræði sé í heiðri haft í heilbrigðis- og tryggingakerfinu.