135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:52]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessari hugmynd sem hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu, m.a. vegna þess að kvörtunum til landlæknisembættisins og til heilbrigðisstofnana hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum. Það vekur athygli mína að þetta er þáttur sem hæstv. ráðherra vill styrkja án þess að stofna til nýs opinbers embættis að svo stöddu. Mig langar því til að varpa þeirri hugmynd fram til hæstv. ráðherra hvort til greina komi að styrkja þennan þátt og styrkja landlæknisembættið enn frekar í störfum sínum með því að gera það að algerlega sjálfstæðri stofnun sem heyri beint undir Alþingi. Að það sé þannig jafnsett þeim heilbrigðisstofnunum sem það á að hafa eftirlit með og jafnframt yfir þeim stofnunum og í rauninni óháð þeim þegar kemur til þess að fjalla um kvartanir og kærur vegna mistaka eða annars.