135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:56]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem er að mínu áliti bæði málefnaleg og góð. Það sem mér finnst standa upp úr, sem ég held að við séum sammála um, þegar kemur að upplýsingum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, er að það sé verkefni fyrir okkur. Það skiptir máli að fólk viti um rétt sinn og kunni á kerfið, eins og menn tala stundum um. Hér komu ágætisábendingar, t.d. frá hv. þm. Ástu Möller um símaráðgjöf en síðan eru margar leiðir til að upplýsa fólk um hver viðkomandi þjónusta er, en ég held að það liggi alveg fyrir að við þurfum að leggja sérstaklega á okkur til að svo megi verða. Mun sá sem hér stendur gera það og vonandi koma einhverjar leiðir í ljós á næstunni í þeim efnum.

Á sama hátt hefur landlæknisembættið verið styrkt, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á, og er það auðvitað vel og hvort við eigum að breyta því enn frekar en er í núverandi lögum er eitthvað sem við hljótum alltaf að skoða og fara yfir. Ég er sannfærður um að góð umræða verður um þetta í hv. heilbrigðisnefnd þingsins og ég hlakka til að vinna með hv. þingmönnum að þeim markmiðum sem við erum sammála um, þ.e. að þeir sem njóta þessarar þjónustu og aðstandendur þeirra hafi sem allra bestar upplýsingar um þá þjónustu sem í boði er og ég held að við séum öll sammála um að þar er verk að vinna.