135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Árið 1997 voru heildarskuldir sjávarútvegsins u.þ.b. 125 milljarðar kr. en eru í dag taldar yfir 300 milljarðar kr. Þær hafa sem sagt nær þrefaldast á 10 árum. Árið 1997 voru útflutningstekjur sjávarútvegsins 96 milljarðar og eru á þessu ári taldar verða 120 milljarðar. Hlutfallið á milli heildarskulda sjávarútvegsins og útflutningstekna greinarinnar á ári hefur aukist úr 1,3 í 2,5 sem segir okkur að sjávarútvegurinn þarf í dag að nota heildartekjur sínar í tvö og hálft ár til að greiða upp skuldir sínar í stað þess að fyrir 10 árum þurfti rúmlega eitt ár. Þar við bætist aukinn vaxtakostnaður vegna ört vaxandi heildarskulda sjávarútvegsins. Ljóst er að skuldasöfnun sjávarútvegsins er að stórum hluta vegna kvótakerfisins, kaupa og sölu á aflaheimildum, og þeirrar staðreyndar að tugir milljarða kr. hafa á ári hverju verið teknir út úr greininni og notaðir í aðrar fjárfestingar, bæði innan lands og ekki síður erlendis. Margir útgerðarmenn hafa selt rétt sinn sem hefur leitt til stórfelldrar skuldasöfnunar. Þeir sem selja fá hærra verð fyrir söluna á óveiddum fiski í sjó, kvótanum, en þeir keyptu á eða fengu úthlutaðan án greiðslu á sínum tíma. Öll árin frá því að kvótinn var settur á hefur verðið hækkað og þeir sem kaupa skuldsetja sig og heildarskuldir sjávarútvegsins hækka á hverju ári sem því nemur.

Þessi öra skuldasöfnun sjávarútvegsins hefur leitt til þess að sífellt hærra hlutfall tekna hefur farið í vaxtagreiðslur og lántökur á hverju ári og arðgreiðslur vegna samþjöppunar eignarhalds á kvótum ef einhver afgangur hefur orðið af rekstrinum eftir kvótakaup á okurverði. Afleiðing leigukvótakerfisins sem lækkar laun sjómanna og niðurskurður þorskafla ásamt öðrum breytingum sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa m.a. orðið til þess að erfitt er orðið að manna sum fiskiskipin sem eru að töluverðum hluta mönnuð útlendingum, t.d. línuveiðiskip sem eru með beitningavélar. Launagreiðslur á fiskiskipum hafa lækkað og sjómannsstörfum fækkað. Hart er sótt af útgerðarmönnum til að fækka sjómönnum á skipum og ná niður launum og launatengdum kostnaði, jafnvel svo að komið gæti niður á öryggi.

Með þeim samdrætti sem ákveðinn hefur verið í þorskveiðum mun ástandið í íslenskum sjávarútvegi enn versna, tekjur lækka og skuldir vaxa enn hraðar. Þegar kreppan var í færeyskum sjávarútvegi fór hlutfall útflutningstekna og heildarskulda aldrei yfir 2 ef ég man rétt og þótti Færeyingum þá nóg um þá alvarlegu stöðu. Miðað við þá alvarlegu stöðu sem hér hefur verið lýst er eðlilegt að beina nokkrum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra.

1. Hefur sjávarútvegsráðherra látið kanna hversu hátt hlutfallið á milli skulda og útflutningstekna má verða til að ekki verði lengur við unað?

2. Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra áhyggjur af þeirri staðreynd að þessar miklu skuldir hvíla sem skuldbinding á sjávarútveginum um ókomin ár og munu að óbreyttu stefna atvinnugreininni í voða?

3. Var tekið tillit til skuldastöðu sjávarútvegsins þegar niðurskurður þorskaflans var ákveðinn?

4. Hefði verið eðlilegra að skerða loðnuaflann í bræðslu sem vegur aðeins 5% af heildaraflaverðmætinu og reyna þannig að auka vöxt þorsksins en að skerða þorskaflann sem vegur 37% af heildaraflaverðmætinu?

5. Ætlar sjávarútvegsráðherra að fjölga enn kvótabundnum fisktegundum til að auka enn veðsetningu á lifandi fiski í sjó vegna hærri skulda?

6. Telur sjávarútvegsráðherra koma til greina að takmarka með lögum veðheimildir lánastofnana eða hvaða aðrar leiðir telur ráðherrann færar til að hægja á mikilli skuldaaukningu sjávarútvegsins?

Við ráðum ekki heimsmarkaðsverði sjávarafurða.

Að lokum þetta, verði áfram sami vöxtur í hærri skuldum næstu fimm ár og verið hefur munu vandræði af hljótast fyrir íslenskt efnahagslíf. Sá vandi mun verða borgaður af fólkinu í landinu, öllum íbúum en ekki aðeins þeim sem eru í sjávarútvegi eins og sumir virðast telja.