135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín allmörgum spurningum. Ég skal freista þess að svara þeim. Fyrstu tveim spurningunum mun ég reyna að svara með almennari hætti.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að heildarskuldir sjávarútvegsins hafa hækkað á umliðnum árum en það er auðvitað ekki einsdæmi að það hafi gerst í sjávarútveginum. Við vitum að skuldasöfnun í atvinnulífinu hefur aukist mjög mikið í mörgum tilvikum og ef við skoðum t.d. tímabilið 1998–2005 í Peningamálum Seðlabankans kemur þar fram að heildarskuldir sjávarútvegsins jukust á þessu tímabili um 55%. Auðvitað er það umtalsverð skuldaaukning. En þá verðum við að hafa í huga að heildarskuldir í öðrum atvinnugreinum jukust á þessum tíma yfir 300% þannig að við sjáum á þessu að þrátt fyrir umtalsverða skuldaaukningu í sjávarútveginum er hún talsvert minni hlutfallslega en hefur orðið í öðrum atvinnugreinum.

Stóra málið í þessu sambandi, og svarar þá í raun og veru fyrstu tveimur spurningum hv. þingmanns, er hvort sjávarútvegurinn standi undir þessum skuldum. Er sjávarútvegurinn að safna vanskilum? Er sjávarútvegurinn að komast í þrot gagnvart lánastofnunum sínum? Við vitum að svo er ekki. Á sínum tíma fór fram á vegum Byggðastofnunar fyrir fáeinum árum athugun á því hvernig háttað væri vanskilum einstakra atvinnugreina. Þar kom m.a. fram varðandi sjávarútveginn að hann var með bestu skuldunautum lánardrottnanna vegna þess að hann stóð í skilum og veðin voru nægjanleg.

Við skulum ekki gleyma því hvernig fjármálakerfi okkar hefur þróast. Það hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Í dag er um að ræða viðskipti tveggja aðila, þ.e. þess sem tekur lánið og þess sem veitir það. Sá sem ákveður að taka lánið gerir það væntanlega vegna þess að hann telur hagsmunum sínum betur borgið með því að taka lán til að fjárfesta í einhverju sem veitir arð. Sá sem veitir lánið horfir á tvo hluti, annars vegar veðin og hins vegar möguleikann til að greiða skuldirnar til baka. Það er auðvitað það sem lánastofnanir horfa á og hafa þá fulla trú væntanlega á því að sjávarútvegurinn geti borgað til baka þær skuldir sem hann hefur stofnað til.

Þess vegna vil ég svara hv. þingmanni varðandi tvær fyrstu spurningarnar svona: Við höfum út af fyrir sig ekki látið kanna það hlutfall sem sjávarútvegurinn getur staðið undir. Það er einhver ákvörðun sem einstök fyrirtæki hljóta að taka hvert fyrir sig með sínum lánastofnunum. Það er hin ábyrga fjármálastjórnun.

Sama varðandi það hvort ég hafi áhyggjur af þessu, auðvitað hafa menn áhyggjur af því ef skuldir vaxa hratt. Aðalmálið er hins vegar hvort menn geta staðið við þessar skuldbindingar.

Varðandi það hvort við höfum tekið tillit til skuldastöðu sjávarútvegsins þegar ákvörðun um heildaraflamark var tekið var það auðvitað þáttur sem við horfðum til en hitt skipti mestu máli, að við værum að reyna að ná tökum á þessu. Það er ljóst mál að sjávarútvegurinn gæti ekki borgað skuldir sínar ef hann byggi við sífellt minnkandi aflaheimildir.

Hv. þingmaður spurði líka hvort ekki hefði verið eðlilegra að skerða loðnuafla í bræðslu til að auka fæðuframboð gagnvart þorskinum. Það er nákvæmlega það sem hefur verið gert. Við vitum að loðnuaflinn undanfarin ár hefur verið mjög lítill. Hann hefur að langmestu leyti farið í fullvinnslu sem er athyglisvert og sýnir mikinn sveigjanleika og útsjónarsemi stjórnenda íslensks sjávarútvegs. Þar hefur það gerst að þrátt fyrir minni aflaheimildir ná menn miklum árangri í því að auka verðmæti úr hverju veiddu kílói og sýnir þann árangur sem er að nást í þessum efnum og er hluti af því sem við höfum séð í þeirri fjárfestingu sem hefur orðið í sjávarútveginum, í betri skipum, möguleika þess vegna á að fara betur með hráefni, fjárfestingum í fiskvinnslunni, aukinni tæknivæðingu, aukinni þekkingu sem hefur leitt til aukinnar nýtingar o.s.frv. Sjávarútvegurinn hefur, þrátt fyrir að skuldirnar hafi aukist og heildaraflamarkið ekki, verið í færum til að standa undir þessum skuldbindingum.

Hv. þingmaður spurði líka hvort ætlun ráðherrans væri sú að fjölga enn kvótabundnum tegundum til að auka veðrými. Það eru engin áform uppi um það. Það er ekki litið þannig á að það að setja tegundir í kvóta sé aðferðin til að auka veðrými. Það er gert af tilteknum ástæðum sem eiga ekkert skylt við þetta.

Í sjötta og síðasta lagi spyr hv. þingmaður líka hvort ég telji það koma til greina að takmarka með lögum veðheimildir lánastofnana í fiskveiðikvótum til að hægja á skuldaaukningunni. Ég tel að það sé ekki verksvið sjávarútvegsráðherra að reyna að hafa áhrif á það með hvaða hætti einstök fyrirtæki ráðast í sínar skuldbindingar, það er ekki hlutverk stjórnmálamanna. Það var áður og fyrr þegar tiltekin lög og reglur giltu sem gerðu það að verkum að stjórnmálamenn höfðu afskipti af þessu. Í dag er það þannig í sjávarútvegi eins og öðrum atvinnugreinum að hann ber ábyrgð á skuldbindingum sínum, það eru atvinnugreinarnar sem leita eftir lánsfjármagni og þær fá þetta lánsfjármagn ef þær geta staðið undir því eða geta sýnt fram á veðrými o.s.frv. Það er ekki lengur pólitísk ákvörðun um hverjum er lánað og hversu mikið.