135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:41]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 17. júní sl. sagði hæstv. forsætisráðherra í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg hagræðing í sjávarútvegi og afkoma fyrirtækja almennt batnað.“

Síðar í ræðu sinni bætti ráðherrann við, með leyfi forseta:

„Nú er meiri viðspyrna og við höfum betri efni á að líta til lengri tíma og taka á okkur byrðar sem létt gætu róðurinn síðar. Það eru hyggindi sem í hag koma.“

Þetta var stöðumat forsætisráðherra á sjávarútveginum á þessum tíma, gífurleg hagræðing, batnandi afkoma og meiri viðspyrna.

Í sama mánuði í kjölfar hátíðarræðu forsætisráðherra birti Seðlabankinn upplýsingar um heildarskuldir í sjávarútvegi sem námu þá rúmlega 304 milljörðum kr. og höfðu hækkað frá áramótum um 27 milljarða, á þessu hálfa ári.

Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var um miðjan september sl. kom fram að heildarskuldir sjávarútvegsins hefðu aukist um 200 milljarða á síðustu 10 árum. Er þetta hagræðingin sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið að tala um? Er þetta það sem átt við með markmiðum laga um stjórn fiskveiða þar sem rætt er um hagræðingu og hagkvæmni í sjávarútvegi? Í hverju felst viðspyrnan sem forsætisráðherra talar um? Gætir hennar í nýlegum uppsagnarbréfum sjómanna á Hornafirði eða fiskvinnslufólks á Skagaströnd, Breiðdalsvík eða Eskifirði og víðar um landið sem rekja má til erfiðrar stöðu sjávarútvegsins, m.a. skuldasöfnunar?

Forseti. Ástandið í sjávarútveginum er nú orðið með þeim hætti að ekki verður búið við það lengur, það sér hver maður. Það væru hyggindi sem í hag kæmu ef menn hefðu kjark í sér til að ráðast að rótum vandans.