135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Verðmæti kvótabundinna tegunda í dag eru um þúsund milljarðar. Það er ekkert gott að skulda 300 milljarða en þéna bara 120 milljarða. Eins og útlitið er fyrir í ár verða útflutningstekjur upp á u.þ.b. 120 milljarða. En bankarnir eru rólegir á meðan gjafakvótakerfið er við lýði. Enn og aftur skulu menn átta sig á því, það er það sem heldur bankakerfinu gangandi og bönkunum rólegum, það að þessar tegundir eru allar í kvóta. Það er pólitísk ákvörðun, hv. þm. Helgi Hjörvar, að vera með tegundir í kvóta sem þurfa ekki að vera í kvóta.

Hið sama má segja við hæstv. sjávarútvegsráðherra, þegar hann talar eins og hann sé, ég veit ekki hvað, hvítvoðungur í sjávarútvegi veit hann samt betur. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta eins og hann kemur og segir: Aðrar atvinnugreinar eru að auka skuldir. Auðvitað eru álverin að auka skuldir, áliðnaðurinn sem slíkur, en þeir eru líka að bæta við sig. Það er samdráttur í sjávarútvegi en aukning í ferðaþjónustu. Auðvitað bætir ferðaþjónustan við sig skuldum, en hún bætir líka við sig tekjum, og það er hlutur sem hæstv. sjávarútvegsráðherra á að átta sig á.

Það er ekkert annað en ríkisstyrkur, þetta gjafakvótakerfi. Þetta eru þúsund milljarðar sem voru færðir frá ríkinu án þess að króna væri borguð fyrir þá.