135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:50]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar horft er til þess hversu mikil skuldaaukning hefur orðið í sjávarútvegi verður að líta til afkomu greinarinnar í heild og þeirrar þróunar sem orðið hefur í henni undanfarin ár. Mikil hagræðing hefur orðið í greininni sem hefur skilað sér í bættri afkomu sjávarútvegsins. Það vita allir sem vilja vita það að fiskiskipaflotinn sem hér var við veiðar við Íslandsstrendur var allt of stór, mjög óhagkvæmur og nauðsynlegt var að fækka skipum og bátum í flotanum. Slíkar aðgerðir kosta sitt en þær leiða líka til þess að útgerðin verður hagkvæmari en ella.

Ætlar einhver að halda því fram að það hafi ekki verið nauðsynlegt og skynsamlegt að fækka togurum úr því að vera í kringum 115, eins og þeir voru 1996, niður í það að vera tæplega 70 stykki 10 árum síðar? Auðvitað var það nauðsynlegt, bæði út frá rekstrarlegu og umhverfislegu sjónarhorni, en auðvitað varð líka breyting á flotanum við það. (GMJ: … útgerðina …) Hið sama má segja um landvinnsluna, þar hafa fyrirtækin leitað leiða til að bæta rekstur sinn. Það hefur m.a. haft í för með sér að fiskvinnsluhúsum hefur fækkað þar sem tækjakostur er orðinn mun öflugri en áður. Slíkt kallar á fjármagn til fjárfestinga og er ekkert nema eðlilegt við slíkar fjárfestingar, tækni og framþróun sem hefur átt sér stað í fiskvinnslunni eins og öðrum geirum.

Ef horft er aftur í tímann, þegar afli á Íslandsmiðum var mun meiri en hann er um þessar mundir, munum við að afkoma sjávarútvegsins var engu að síður mun verri en hún er í dag þrátt fyrir að þá hafi gengi krónunnar tekið mið af afkomu sjávarútvegsins. Þegar við skoðum þetta í samanburði við aðrar greinar frá 1974–1995 var framleiðsluaukningin 3,49% á meðan hún var að meðaltali og almennt 1,13% og rannsóknir sem síðan hafa verið gerðar í framhaldinu sýna hið sama.

Virðulegi forseti. Það er hagræðing í sjávarútvegi sem hefur orðið til þess að greinin er eins sterk og raun ber vitni og það er einmitt vegna aðgangs að lánsfjármagni bankanna sem hagræðing hefur átt sér stað, banka sem lána fé út frá viðskiptalegum forsendum í stað þess að skammta úr hnefa út frá pólitískum sérhagsmunum (Forseti hringir.) með tilheyrandi afleiðingum eins og tíðkaðist hér á árum áður.