135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:54]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem farið hafa fram um þetta afar brýna mál. Ég sá fulla ástæðu til þess að hefja máls á þessu í kjölfar ummæla hv. þm. Illuga Gunnarssonar í fréttum á mánudaginn og hv. forstjóra Landsvirkjunar, og fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem talaði um það skýrum orðum að hlutafélagavæðing Landsvirkjunar væri í hans huga einkavæðing.

Ég þakka þau svör hæstv. forsætisráðherra að ekki eigi að einkavæða Landsvirkjun. Að sama skapi hlýtur maður að spyrja sig hvað felist í hlutafélagavæðingunni sem hv. iðnaðarráðherra viðurkenndi að væri á dagskrá hjá ríkisstjórninni. Ég held að það sé alveg ljóst að með sölu á hlutnum í Hitaveitu Suðurnesja hafi síðasta ríkisstjórn gengið of langt.

Í fréttum, sem birtust í DV 10. október, segir Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitunnar, að ef ríkið hlaupi ekki undir bagga með framkvæmdir við lagningu vatnslagnar til Vestmannaeyja muni gjaldskráin hækka upp í topp. Er það þannig sem ríkisstjórnin sér þessa hluti fyrir sér í framtíðinni? Á íslenska ríkið að greiða fyrir þær framkvæmdir sem einkaaðilum í orkumálum þykja ekki arðbærar?

Varðandi hinn mikla endurnýjunarmátt Framsóknarflokksins þá lít ég á það sem mikið hrós í minn garð. Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir umræðuna.