135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[11:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsögu í þessu máli. Það er aðeins eitt lítið, en kannski stórt, atriði sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út úr í þessu samhengi. Í II. og III. kafla frumvarpsins er fjallað um söfnun upplýsinga frá einstaklingum og heimilum og um úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga af alls konar tagi. Í III. kafla er reyndar líka talað um trúnað og þagnarskyldu en engu að síður virðist mér að Hagstofunni sé heimilt og reyndar skylt að safna upplýsingum og heimilt að safna upplýsingum héðan og þaðan og tengja þær saman með ýmsum hætti.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða hlutverki gegnir Persónuvernd í þessu samhengi? Er tryggilega frá því gengið að eðlileg sjónarmið um vernd persónuupplýsinga séu tryggð þrátt fyrir þau ákvæði sem hér eru sett fram um heimildir Hagstofunnar til að tengja saman upplýsingar?