135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[11:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurstaðan úr þessum breytingum er sú að ráðuneytum fækkar úr 14 í 12. Þau voru 14 og þau eru 12 eftir þessar breytingar. Um það þarf ekki að deila.

Viðskipta- og iðnaðarráðuneytin voru samrekin síðastliðin 15 ár eða svo. Ekki þótti ástæða til að halda þeim samrekstri áfram. Í staðinn eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin gerð að einu ráðuneyti, og það var gert með lögum nú í vor.

Það er síðan önnur spurning hvort ganga á lengra í þessu efni. Ég efast ekki um að þessari vinnu verður að einhverju leyti haldið áfram á næstu árum. Spurt var: Getum við náð fram enn meiri skilvirkni með meiri hagkvæmni í Stjórnarráði Íslands en þó er verið að gera með þessum breytingum? Það má vel vera að það sé hægt. Ég veit vel að ýmsir ráðherrar Framsóknarflokksins í síðustu ríkisstjórn höfðu áhuga á því máli. Það höfum við í núverandi ríkisstjórn sömuleiðis.

En vandinn í þessu máli öllu saman hefur í gegnum árin falist í því hve erfitt hefur verið að ná samstöðu og samkomulagi um einhverjar breytingar. Um þessar breytingar má vissulega hafa það orð að þetta séu lágmarksbreytingar. En þær eru þó alla vega skref í rétta átt.