135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[11:55]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra er einhvers staðar hér nálægt — hann mun vera þarna í hliðarsal.

Hæstv. forseti. Ég held að það sé merki um hve góð lög raforkulögin eru að nú þegar er komið frumvarp til að lækka gjöld, sem kemur í framhaldi af ákvæði laganna um þetta eftirlitsgjald. Þar virðist hafa verið reiknað með heldur meira svigrúmi og því er komið frumvarp til þess að lækka það gjald, sem er náttúrlega bara sanngjarnt og eðlilegt miðað við upphafleg lög.

Í öðru lagi snýst þetta frumvarp um að koma á ákveðnu neyðarsamstarfi í raforkukerfinu sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Um það er ekkert nema gott að segja og það styð ég heils hugar, enda var undirbúningsstarf vegna þessa hafið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, best að taka það fram.

Svo er það í þriðja lagi mál sem ég vil koma inn á nokkuð sem ekki hefur áður verið rætt, það sem kallað hefur verið netþjónabú. Þetta er nokkurs konar lausnarorð í dag, heyrist mér. Hæstv. iðnaðarráðherra talar gjarnan um þetta sem nýjan möguleika í atvinnustarfsemi okkar og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar finnst mér þurfa koma fram, við þurfum að ræða það hér á hv. Alþingi, hvers konar starfsemi þetta er og hvað slík netþjónabú koma til með að skaffa mörg störf miðað við notkun á raforku. Mér finnst það stórt mál ef nota á gríðarlega raforku í að skapa tiltölulega fá störf. Ég hef grun um að svo sé í þessu tilfelli.

Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um það. Hvað t.d., ef við tökum sem dæmi 100 megavöttin, gefur sú orka mörg störf í netþjónabúi í samanburði við álver? Þetta er eitt af því sem ég vildi spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um. Hann hlýtur að vita þetta.

Frumvarpið gengur m.a. út á að gefa þessari starfsemi möguleika á að fá þá skilgreiningu að hún sé í raun stóriðjustarfsemi og geti átt möguleika á að fá raforkuverð sem sambærilegt er við það sem við köllum stóriðjuverð. Ég get hins vegar ekki séð að það sé þannig, eins og haft var eftir hæstv. ráðherra í einhverjum fjölmiðli, að hann væri að undirbúa frumvarp sem tryggði að netþjónabú fengju raforku á sama verði og stóriðjan. Ég held að það sé ekki hægt af hálfu stjórnvalda, að tryggja ákveðið verð til slíkra fyrirtækja frekar en annarra. Það getur verið að ég hafi það rangt eftir hæstv. ráðherra.

Þetta er stórt mál að mínu mati, hvers konar starfsemi þetta er og hve mörg störf hún skapar, t.d. miðað við framleiðslu á áli. Ég veit að álver eru ekki mjög hátt skrifuð hjá hæstv. ráðherra og ekki notkun á þessu orði „áli“. Þegar tekin var ákvörðun um að byggð skyldi álþynnuverksmiðja á Akureyri þá hét hún ekki lengur álþynnuverksmiðja, eins og hún hét á síðasta kjörtímabili þegar ég kom að uppbyggingu þeirrar verksmiðju, heldur hét hún aflþynnuverksmiðja. Ég hef grun um að það hafi verið sérstaklega hugsað til að þurfa ekki að nota orðið stutta og laggóða.

Ég vil spyrja um eitt enn sem snýr að frumvarpinu, eða kannski frekar að netþjónabúum. Ég veit að ég ætti kannski fremur að beina þessum spurningum til hæstv. samgönguráðherra. En ég hef grun um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi eitthvað komið að þeim málum líka, en það varðar sæstreng. Nú hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja sæstreng til Danmerkur, Danice, sem mun kosta um 5 milljarða kr. Því verkefni á að ljúka á næsta ári. Það hefur komið fram í tengslum við þessa umræðu, um netþjónabú, að einkaaðili er tilbúinn til að leggja sæstreng til Íslands sem kosta muni minna fé en það sem hér um ræðir. Þá er spurningin gagnvart ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra sú hvort það samræmist aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Við lútum Eftirlitsstofnun EFTA hvað varðar samkeppnisþættina. Samræmist það lögum og aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu að ríkið fari í samkeppni við einkaaðila um að leggja slíkan sæstreng? Ég veit að þetta var skoðað á fyrri stigum og reyndist þá ekki á skjön við reglur Evrópska efnahagssvæðisins en nú er alveg nýtt upp á teningnum og því er mikilvægt að fá svör við þessu, ekki síst vegna þess að núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur hafnað því að veita mörgum sveitarfélögum á Íslandi aðstoð vegna lagningar ljósleiðara eða til að koma á háhraðatengingum vegna þess að einkaaðilar hafi þegar verið starfandi á svæðinu. Ástæðan fyrir því að hafna þessum sveitarfélögum um aðstoð frá ríkinu hefur verið sú að ríkið geti ekki komið inn á svæði þar sem einkaaðilar eru þegar að störfum á þessu sviði. Mér finnst þetta vera mjög sambærilegt mál og ríkisstjórnin hlýtur að hafa fjallað um þetta.

Ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra geti gefið mér svör um hvað er að gerast í sæstrengsmálum auk þess sem hann gæti frætt okkur frekar um hvers konar starfsemi hér um ræðir, sem kölluð hefur verið netþjónabú. Hvað skapar slíkt fyrirtæki mörg störf, t.d. í samanburði við álfyrirtæki?