135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefði hv. þingmaður auðvitað átt að beita sér fyrir því að ég yrði ekki bara orku- og iðnaðarráðherra heldur landbúnaðarráðherra líka. Þar með félli grænmetisframleiðslan og gróðurhúsaræktin undir mig einnig og ég hefði þá getað beitt mér fyrir því.

En svarið við spurningu hv. þingmanns er einfalt. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega. Hins vegar er þarna verið að lækka lágmarkið sem menn þurfa að kaupa til að geta notið þessara kjara. Ég hef sjálfur margoft sagt hér í umræðum um hagsmuni og starfsumhverfi ylræktar á Íslandi að það hljóti að koma til greina að þeir sem að því starfa myndi með sér samtök sem semji fyrir þeirra hönd um kaup á raforku og gætu þá hugsanlega fengið betri kjör í krafti magns sem viðkomandi samtök mundu kaupa.

Hvað netþjónabúin varðar þá hafa aðrir og vísari menn en ég spáð fyrir um það að eftir að annar sæstrengur væri kominn til Íslands, eins og ríkisstjórnin hefur ákveðið, kynni svo að fara að á næstu 5–7 árum skapaðist slíkur iðnaður hér á landi sem krefðist orku sem gæti náð því að slaga upp í meðalstórt álver.

Ég hef verið talsmaður þess að orkumarkaðurinn á Íslandi, orkuframleiðendur á Íslandi sæju til þess að til væri orka hér á landi til að hægt væri að drífa annan iðnað en bara áliðju og ég heyri ekki betur en hæstv. forsætisráðherra hafi tekið undir með þessu viðhorfi í stefnuræðu sinni við upphaf þings.

Ég held að allir séu þeirrar skoðunar að það sé farsælast fyrir Íslendinga að skjóta sem margvíslegustum stoðum undir okkar iðnað og framleiðslu hér á landi. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að mér finnist það ekki rétt að setja öll okkar egg í eina körfu sem er úr áli gerð. (Forseti hringir.) Þess vegna er m.a. verið að reyna að draga hér inn annars konar iðnað og láta ekki landsbyggðina sitja út undan.