135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga snýst þetta ekki um fordóma gagnvart einhverri tiltekinni atvinnustarfsemi en hæstv. iðnaðarráðherra hlýtur að átta sig á að raforkuframleiðslunni er engu að síður takmörk sett. Við erum að ræða um takmarkaða auðlind. Þess vegna snýst þetta ekki um fordóma gagnvart einhverri tiltekinni atvinnustarfsemi, heldur hvað við getum framleitt mikið af raforku. Síðan er að sjálfsögðu önnur spurning í hvað sú raforka er notuð og þar hljóta að vera takmarkanir, hæstv. iðnaðarráðherra.

Varðandi hitt sem hann sagði um ylræktina, að ylræktendur gætu hugsanlega tekið sig saman og sameinast um kaup. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað ylræktin notar mikið rafmagn, hvað þeir eru stórir hver um sig, eða hvað ylræktendur væru miklir stórnotendur á rafmagn jafnvel þótt þeir legðu allir saman. En eitt er víst, hvort sem þeir leggja allir saman eða semja hver fyrir sig, þá er notkun þeirra væntanlega sú sama í heildina tekið. Og á þá að skipta máli hvort þeir mæta hver fyrir sig eða hvort þeir mæta í einu lagi? Vegna þess að heildarnotkun þeirra hlýtur að vera sú sama óháð því.

Mér finnst að það eigi að skoða þetta af alvöru og ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra segir að nefndin hafi allt svigrúm og muni fá allar upplýsingar frá hans ráðuneyti til þess að skoða þetta. Og þá vænti ég þess líka að framkvæmdarvaldinu liggi ekki svo mikið á með afgreiðslu frumvarpsins að það gefist ráðrúm og tækifæri til að fjalla um málið í hv. iðnaðarnefnd.