135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[12:39]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra er kominn í hús. Ég hafði orð á því, hæstv. landbúnaðarráðherra, í morgun að það væri virðingarleysi af fagráðherrum að vera ekki við þessa miklu umræðu. Ég greindi það svo að það væri sláturtíð sem stæði yfir og mikil skemmdarverk á Stjórnarráðinu. Hæstv. forsætisráðherra bar sig aumlega undan orðum mínum áðan.

Ég vil vitna til þess sem ég heyrði hann segja áðan, að hann talaði um það og það hefur komið hér fram að hann vildi fyrir kosningar — fyrir kosningar — ná samkomulagi allra stjórnmálaflokka um að Stjórnarráðinu yrði breytt með samkomulagi.

Hvað gerðist þess vegna á Þingvöllum? Þá varðaði hann ekkert lengur um samkomulag, hæstvirtan forsætisráðherra. Þá tók hæstv. forsætisráðherra að sér að kyngja öllu því sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lagði til í mörgum breytingum. Ég virði hæstv. forsætisráðherra mikils og lít á hann sem hinn besta dreng en ég er hræddur um að fyrri forustumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu aldrei samið um að breyta Stjórnarráðinu með tveimur mönnum og fara í þær umfangsmiklu breytingar sem nú liggja fyrir á verkaskiptingunni án þess að ræða það í þingflokkum sínum, án þess að ræða það við stjórnarandstöðuna, án þess að ræða það í samfélaginu. Ég harma það, hæstv. forsætisráðherra, ég verð að segja fyrir mig að mér finnst þessi stíll ekki líkur hæstv. forsætisráðherra. Eðlilega skil ég þó að hann þurfti að koma sér með miklu hraði inn í nýtt stjórnarsamstarf, ástfanginn forsætisráðherrann varð að ljúka því verki sem fyrst á kostnað þess sem nú blasir við.

Ég vil líka taka fram að ég var mjög var við það, hæstv. forsætisráðherra, á sumarþinginu að stærri hópur landsbyggðarmanna í þínum flokki þekkti þetta mál ekki, þ.e. hvað væri fram undan. Margir sjálfstæðismenn sögðu við mig á sumarþinginu: Hafðu engar áhyggjur af þessum breytingum með skógrækt og landgræðslu og fleiri verkefni, við munum snúa því öllu við aftur í sumar. Þeir sögðu það. (Iðnrh.: Hverjir?) Ég get nefnt marga þar á nafn. Sumir eru farnir og horfnir, því miður. Ég er hræddur um að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki farið svona með Stjórnarráðið, Davíð Oddsson, ekki gert þetta fyrir hæstv. utanríkisráðherra, hana Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Hér er auðvitað, eins og ég sagði og ég stend við, mikið skemmdarvek unnið, hér er mikið sundrungarstarf unnið eða lagt til. Ég trúi því reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn eigi þá menn sem standi við það sem þeir sögðu í sumar og taki þessi mál málefnalega til umræðu. Reyndar treysti ég mörgu fólki í Samfylkingunni líka til að endurskoða þær ákvarðanir sem tveir forustumenn í stjórnmálaflokkum tóku á Þingvöllum um gríðarlegar breytingar sem eru ekki í takt við nein vinnubrögð fyrr eða síðar um Stjórnarráðið og stangast á við það af því að það er verið að flytja verkefni frá atvinnuráðuneytum inn í verndarráðuneyti, það er verið að fara með verkefni og afvegaleiða þau.

Ég get hér ekki annað, hæstv. forseti, en látið það koma fram bara til þess að það sé ljóst í stjórnmálasögunni að einn af mestu stjórnmálamönnum þessarar þjóðar og fyrrverandi leiðtogi sjálfstæðismanna, Bjarni Benediktsson, sagði fyrir hálfri öld, með leyfi forseta:

„Löggjöf um Stjórnarráð Íslands er mjög í molum, og hefur skipun ráðuneyta eða stjórnardeilda orðið mjög með öðrum hætti en þar er ráðgert. Ráðuneytum hefur verið fjölgað með ákvörðun einstakra ríkisstjórna eða jafnvel ráðherra.“

Það er eins og það sé verið að lesa upp atburði dagsins eða sumarsins.

Svo bætir hann við:

„Leikur það orð á, að stundum hafi vandi við val milli tveggja manna í eitt embætti orðið til þess að ráðuneytum væri fjölgað svo að forstöðumennirnir yrðu tveir í stað eins áður, í öðrum tilfellum hafa jafnvel enn veigaminni ástæður leitt til stofnunar nýs ráðuneytis.“

Eins og til að koma hæstv. iðnaðarráðherra fyrir í sínu litla ráðuneyti og hæstv. viðskiptaráðherra, eitt minnsta ráðuneytið klofið upp og sett í tvo skápa með örfáum starfsmönnum. Engum stjórnmálamanni hefði dottið þetta í hug fyrr eða síðar. Stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir töldu að til stæði að stækka og efla ráðuneytin en ekki höggva þau niður með þessum hætti. Það er þetta sem ég er að fara hér yfir, hæstv. forsætisráðherra.

Ég les áfram Bjarna Benediktsson:

„Þvílík lausatök á hinni æðstu stjórn landsins eru óheppileg hvernig sem á er litið. Efnt hefur verið til aukins kostnaðar án þess að nokkur trygging væri fyrir bættum afgreiðsluháttum, á stundum hefur hið gagnstæða beinlínis orðið afleiðingin. Með fjölgun starfsmanna og flóknara kerfi hefur málsmeðferð orðið lakari en áður. Af augljósri fjársóun og skriffinnsku í sjálfu Stjórnarráðinu hefur leitt að mun erfiðara hefur verið að standa á móti sams konar þróun í ríkiskerfinu að öðru leyti. Eftir höfðinu dansa limirnir. Brýn nauðsyn er því til að nýrri skipan verði komið á starfshætti í Stjórnarráði Íslands. Æskilegast er að þær umbætur verði lögfestar með samráði.“

Hver kannast ekki við orðið „samráð“ úr stjórnmálaumræðu dagsins? Situr ekki leiðtogi samráðsins á Íslandi hér frammi, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir? Hún segist vera samráðsstjórnmálamaður. Ekki var nú haft samráð í þessu efni. (Gripið fram í: Samræður.) Eða samræðustjórnmálamaður. (Gripið fram í.) Það er svolítið annað, samræðustjórnmálamaður. Þetta voru einræður tveggja stjórnmálaforingja á Þingvöllum undir vorsólinni. (Gripið fram í.)

Síðan leggur Bjarni til auðvitað að þetta sé unnið í samráði, samstarfi þingsins og með stjórnarandstöðu ekkert síður eins og forsætisráðherra hæstv. núverandi Geir H. Haarde hafði sjálfur talað um þegar ég sat með honum í ríkisstjórn og fyrir alþingiskosningar. Þetta breyttist allt saman.

Ég vil segja við þessa umræðu, af því að ég tel hér óvarlega farið og að menn séu að ganga hér inn í mikið skemmdarstarf, ég sagði að þetta væri ljótasti bandormur sem ég hef séð fluttan í þinginu og það stafar fyrst og fremst af því að hann er samhengislaus. Hann er illa unninn, það er eins og enginn lögfræðingur hafi komið að þessu verki. Hér er gríðarlegu verkefni hent inn í þingið skipulagslaust og mér skilst að helmingurinn af fyrirætlunum þeirra sé heldur ekki kominn fram þannig að þessi mál — og ég sagði hér í morgun að mörg ráðuneytanna sem hafa legið undir öllum þessum breytingum hafi tapað sínu besta fólki. Það er á förum í þessari óvissu. Það á við landbúnaðarráðuneytið, það á við fleiri ráðuneyti. Það er heilmikil óvissa sem hefur verið sköpuð.

Ef við lítum aðeins á það sem stendur til. Ég sagði í morgun, hæstv. forsætisráðherra: Hvað er það sem gerir það að verkum að menn taka málefni sveitarstjórnanna, sveitarstjórnarmálefnin, sem hafa í áratugi verið í félagsmálaráðuneytinu og færa þau upp í samgönguráðuneyti? Hæstv. forsætisráðherra sagði í vor eða í sumar í miklum átökum um Grímseyjarferjumálið að sér sýndist að ferjumál ættu ekki að heyra undir samgönguráðuneytið. Eru þó ferjumál samgöngur. (Gripið fram í: Ekki Vegagerðina.) (Gripið fram í: Ekki snúa út úr.) Jæja, er það Vegagerðin? Vegagerðin hefur samgöngumál á sínum höndum og vegagerð. Þess vegna spyr ég: Hvað gerir það að verkum að menn taka þennan mikla málaflokk án umræðu og færa hann undir samgönguráðuneytið? Þetta er eitt stórt atriði sem ég vek hér athygli á.

Ég hef síðan farið yfir landbúnaðarmálin. Þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eins og það heitir nú — þá sagði ég í vor: Auðvitað getur það verið skynsamlegt að gömlu atvinnuvegaráðuneytin fari saman. Ég gagnrýndi það í sjálfu sér ekki, en að ætla að gera það með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengist nú undir, að höggva af landbúnaðarráðuneytinu, landbúnaðinum, mörg gríðarlega mikil verkefni sem hann fer með í önn dagsins og í breyttu samfélagi, að höggva vængi og fætur af landbúnaðarráðuneytinu til að stinga því í skúffu inni í sjávarútvegsráðuneyti, er nokkuð sem er erfitt að átta sig á hvað veldur. Það kann að vera að formaður Samfylkingarinnar hafi kosið að gera það með þeim hætti, ég trúi því þó varla. Þetta var niðurstaða sem ekki er góð.

Ég vil segja hér: Ef við horfum á Landbúnaðarháskólann — sem ég gerði mér grein fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn gerði mikla kröfu um að heyrði undir menntamálaráðuneytið og mörgum finnst eðlilegt — höfðum við byggt Landbúnaðarháskólann upp sem atvinnuvegaskóla með mikilli þekkingu, vísindum og rannsóknum, Rannsóknastofnun landbúnaðarins var þangað flutt í heilu lagi í minni tíð sem landbúnaðarráðherra til að styrkja Háskólann á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóla Íslands sem vísindastöð. Ég trúði því að þar með hefðum við ákveðið að þetta væri atvinnuvegaháskóli.

Ég botna ekkert í því, hæstv. landbúnaðarráðherra, hvernig menn ætla að bjóða íslenskum landbúnaði sem er í svo örri þróun og breytingu að taka alla vísindamenn landbúnaðarins, hvort sem þeir heyra undir landbúnaðarháskólana, Skógrækt ríkisins eða Landgræðsluna — Mógilsá er skógræktarstöð landbúnaðarins — og fara með alla vísindamenn landbúnaðarins á einu bretti burt úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið. Mig skortir greind, mig skortir hugsun til að átta mig á þessum breytingum. Þær eru engan veginn í samræmi við það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur í heitum umræðum um Stjórnarráðið, bæði 1989 þegar ég var hér og einnig 1991, kveðið slíka hugsun niður, hinn gamli Sjálfstæðisflokkur. Það er kannski kominn annar til starfa.

Ég sé í frumvarpinu að þessir litlu landsbyggðarskólar eiga að reka sig undir stöðlum menntamálaráðuneytisins eins og stóru skólarnir á höfuðborgarsvæðinu. Ég fullyrði hér að litlir skólar geta ekki lifað undir slíkum stöðlum. Þess vegna hefur Háskólinn á Bifröst dafnað á síðustu árum og hann hefur fyrst og fremst dafnað vegna þess að hann er dálítið frjáls og hefur svigrúm, hefur náð atvinnulífinu og ýmsum nýjum tímum með sér.

Ég hef minnst á það við hæstv. landbúnaðarráðherra og marga stjórnarsinna hvort þá væri ekki ráð við þessa breytingu að velta þessu á ný fyrir sér með vísindamennina en horfa eigi að síður til þess að landbúnaðarháskólarnir verði gerðir að sjálfseignarstofnunum, a.m.k. Háskólinn á Hólum, sem er minni eining með sérstæðari og sértækari verkefni. Ég spyr hæstv. landbúnaðarráðherra um skoðun hans í þessu efni.

Skógrækt ríkisins og Landgræðslan eiga 100 ára afmæli á þessu ári. Þær eru stórbrotnar, gjafirnar sem þessar stofnanir fá á afmælisárinu, það á að færa þær burt frá íslenskum landbúnaði, fara með þær inn í mikilvægt verndar- og eftirlitsráðuneyti sem hefur ekkert við svona stofnanir að gera. Skógrækt ríkisins þjónar landshlutabundnu verkefnunum, vísindamenn Skógræktarinnar á Mógilsá og höfuðstöðvarnar fyrir austan eru í því stóra verkefni sem Alþingi hefur ákveðið, að rækta skóg á Íslandi. Það eru 1.000 skógarbændur á Íslandi á lögbýlum eða hátt í það sem eru að vinna stórvirki. Þessir vísindamenn þjóna þessum atvinnuvegi, eiga alla sína þekkingu í gegnum 100 ára sögu og eru að vinna mikilvægt vísindastarf fyrir skógræktina sem er hlaðin nýrri og meiri orku í landshlutabundnu verkefnunum. Því segi ég, hæstv. landbúnaðarráðherra: Snúðu við. Taktu ekki vísindamennina, taktu ekki þessa starfsstöð af íslenskum bændum. Hún á heima með skógræktarverkefnunum.

Ég fullyrði að fari þessar mikilvægu stofnanir inn í umhverfisráðuneytið, hvort sem það er Landgræðslan í Gunnarsholti eða höfuðstöðvarnar fyrir austan, verða þær ekki til í sinni mynd eftir fimm ár. Þær eru að fara í ferðalag sem þær eiga ekki að vera í. Ég bið hæstv. forsætisráðherra, og hæstv. utanríkisráðherra sem er af góðum bændaættum komin austan úr Flóa, að velta fyrir sér hvort þau geti ekki hlustað á þessi rök og farið yfir málið á nýjan leik.

Ég vil enn fremur segja: Hver segir það og hvernig getur hæstv. landbúnaðarráðherra liðið það að menntamálaráðherra, sem ekkert hugsar um landbúnaðarmál, eigi að vera æðstur yfir öllum vísindastöðvum landbúnaðarins, hvort sem það eru Hólar, Hvanneyri, Hestur, Stóra-Ármót eða Möðruvellir? Af hverju eiga þessar vísinda- og rannsóknastöðvar, kynbótastöðvar og tilraunastöðvar að heyra undir menntamálaráðherra? Auðvitað verður hæstv. landbúnaðarráðherra að hafa þann metnað til að bera að þetta heyri landbúnaðinum til og landbúnaðarráðuneytinu.

Ég geri mér grein fyrir því að skólarnir eru á þessu ferðalagi, þar verður ekki snúið við, hæstv. forsætisráðherra, ég þekki það, en það er hægt að skoða margt innan borðs betur og fara yfir það sem ég hef sagt. Þar kemur sjálfseignarstofnunin til greina. Ég fullyrði hér að minn ágæti vinur, ég get sagt frá því, Ágúst Einarsson á Bifröst hefur talið sinn skóla í mikilvægum farvegi hvað frelsið varðar. Ég hef rætt við hann hvort þetta sé ekki formið, sjálfseignarformið, sem þá verði að taka upp hvað a.m.k. landbúnaðarskólana varðar, sérstaklega Hóla.

Síðan eru auðvitað margar fleiri breytingar. Ég geri mér grein fyrir því að Landbúnaðarstofnun sem flutt var á Selfoss er orðin þar mikið fyrirtæki, fær viðbótarverkefni og mikilvæg fyrir íslensk matvæli þó að ég undri mig á því. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þar eigi að klippa landbúnaðarnafnið líka í burtu. Má hún ekki heita Landbúnaðarstofnun og matvælaeftirlitið eða Matvælaeftirlitið og landbúnaðarstofnun? Þarna eru mikilvæg stjórnsýsluverkefni sem heyra landbúnaðinum til. Hún fer með lax og silung, hún fer með mikil verkefni sem snúa að skrá yfir beingreiðslur bænda og heldur utan um það. Þar er búfjáreftirlit o.fl. Þessi stofnun var stofnuð til að þjóna íslenskum landbúnaði. Ég geri mér grein fyrir því að hún hefur fengið gríðarleg verkefni til viðbótar sem ég fagna. Ég held að það sé mikilvægt að koma þessu með þessum hætti undir atvinnu- og matvælaframleiðsluráðuneytin þannig að ég ætla ekkert að leggjast gegn því. En þarna verða menn að hugsa, þetta er líka stjórnsýslustofnun, um leið og hún fær nýtt og viðamikið hlutverk. Ég tel að það séu ákveðin tímamót en þar verði menn einnig að vara sig og vanda sína vinnu.

Ræðutíma mínum er senn lokið hér við þessa 1. umr. Ég ítreka það sem ég hef sagt að hér er óvarlega farið. Ég trúi því ekki að margir af skynsömustu stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna vilji láta þetta fara með þessum hætti. Það er ekkert að því, hæstv. forseti, að alþingismenn viðurkenni það stundum að þeir geti verið vitrari í dag en þeir voru í gær. Það er ekkert sjálfgefið að keyra út í mýri og þess vegna er gott að velta hlutunum fyrir sér í tíma og snúa þeim við. Ég virði mikils þá menn sem þannig vinna.

Ég vil að lokum segja við hæstv. forsætisráðherra, af því að ég hef mætur á honum: Því miður mun þetta verk hæstv. forsætisráðherra ekki standa lengi og ekki verða talið til fyrirmyndar í lagasetningu hvað Stjórnarráðið og verkefni þess varðar. (Forseti hringir.) Það mun standa stutt og (Forseti hringir.) það mun verða hæstv. forsætisráðherra til skammar (Forseti hringir.) nema hann endurskoði þetta mál (Forseti hringir.) með skipulögðum hætti og landi (Forseti hringir.) því með öðrum hætti, hæstv. forseti.