135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru ekki mörg ár síðan umræður um loftslagsmál voru fremur illa séðar hér í þessum sal og látið að því liggja að áherslur á þau jöðruðu við að mála skrattann á vegginn. Sem betur fer er sú tíð liðin því að í stefnuræðu sinni sagði hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin ætlaði að efla starf að loftslagsmálum og hann lagði áherslu á að það yrði gerð áætlun um það hvernig Ísland gæti mætt væntanlegum framtíðarskuldbindingum sínum.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði við sama tækifæri að loftslagsmálin væru stærsta viðfangsefni stjórnmálanna hvarvetna í heiminum. Hún sagði að runninn væri upp tími aðgerða og að öll lönd heimsins þyrftu að axla sína ábyrgð og sýna frumkvæði. Hún sagði að Ísland ætti að standa þar í fararbroddi.

Í sama streng tók hæstv. umhverfisráðherra á nýafstöðnu umhverfisþingi. Í ræðu sinni þar sagði hún að áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum á náttúruna og líffræðilega fjölbreytileika hennar skyldu ekki vanmetinn. Hún sagði að ábyrgð okkar Íslendinga væri engu minni en annarra þjóða í þeim efnum og lýsti áhyggjum af því að þrátt fyrir hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi losuðum við meira af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en meðalþjóð í Evrópu. Hún sagði að þessu þyrftum við að breyta.

Með leyfi forseta, sagði hæstv. umhverfisráðherra:

„Við eigum ekki að biðja um undanþágur, heldur leggja okkar af mörkum — vera í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og til fyrirmyndar í þeim efnum.“

Nú spyr ég. Hvað átti hæstv. umhverfisráðherra við með þessum orðum? Og hvernig ætlar hún sem æðsti ráðamaður þjóðarinnar á vettvangi umhverfismála að vera í fararbroddi, ekki í fremstu röð, heldur fremst, í fararbroddi þjóða í heiminum í loftslagsmálum?

Ég spyr vegna þess að á sama tíma tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar um þörfina á aukinni raforkuframleiðslu. Öll jarðvarmasvæði landsins eru undir. Forkólfar orkufyrirtækjanna og orkuútrásarinnar segja að það stefni í þreföldun orkuframleiðslu fram til 2015. Til hvers? Almennur raforkumarkaður stækkar einungis um tæp 2% á ári. Miðað við það þurfum við til þess að anna þörfum hans einungis eina Blönduvirkjun fram til 2030. Hvers vegna er þá svona mikil þörf fyrir að virkja jarðhitann til raforkuframleiðslu í stórum stíl? Hvers vegna eru svona miklar vonir bundnar við djúpborunarverkefni sem hæstv. iðnaðarráðherra sem nú gekk í salinn kallar leynivopn íslensku orkuútrásarfyrirtækjanna sem þau geti haft innan sinna herklæða þegar þau fara á erlenda grund? (Iðnrh.: Var það ekki vel gert?)

Það blandast auðvitað engum hugur um hvað átt er við. Hér er auðvitað verið að tala um áframhaldandi stjórnlausa stóriðjustefnu. Sölu á orku sem er unnin úr jarðvarma á einhverjum viðkvæmustu svæðum íslenskrar náttúru, svæðum með gríðarlega hátt verndargildi, svæðum sem eiga að njóta verndar nú þegar samkvæmt náttúruverndarlögum. Ég spurði hér að framan, virðulegi forseti. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra okkur að vera í fararbroddi í loftslagsmálum á heimsvísu?

Fyrr á þessu ári voru kynnt markmið ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að losun gróðurhúsalofttegunda yrði minnkuð um sem nemur 50–75% fyrir miðja öldina. Ég veit ekki annað en að það markmið standi enn. Þá spyrjum við. Hvernig ætla menn að ná þessu metnaðarfulla markmiði og hvað líður aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda?

Nú er nýafstaðin úthlutun losunarheimilda til þeirra fyrirtækja sem heyra undir nýlega löggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda. Þar var úthlutað stærstum hluta þeirra heimilda sem íslensk stjórnvöld hafa til ráðstöfunar fram til 2012 þegar fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur.

Það er augljóst, virðulegi forseti, að áform um frekari uppbyggingu álvera á Íslandi og annars iðnaðar sem losar umtalsvert magn gróðurhúsalofttegunda rúmast ekki innan þeirra losunarheimilda sem til ráðstöfunar eru samkvæmt íslenska undanþáguákvæðinu.

Nú skulum við líka hafa það í huga að umhverfisráðherra sagði á umhverfisþinginu að við ættum ekki að biðja um undanþágur. Þá er komið að annarri áleitinni spurningu: Fara íslenskir samningamenn með kröfur um frekari undanþágur á losunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til fundar samningsaðila á Balí í desember næstkomandi?

Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í stefnu Samfylkingarinnar sem gaf það út í stefnuskrá sinni fyrir kosningar að það ætti að innheimta greiðslur fyrir losunarheimildir enda væri það í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Þá má nefna líka að stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili, Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, stóð saman að breytingartillögu við frumvarp um losun gróðurhúsalofttegunda þar sem það var lagt til að innheimt yrði gjald fyrir heimildirnar.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún sé í minni hluta í ríkisstjórninni hvað varðar innheimtu gjaldsins fyrir losunarheimildir eða hvort breytinga sé að vænta í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Ég dreg í sjálfu sér ekki í efa góðan vilja hæstv. umhverfisráðherra, en ég sé ekki betur en að það verði við ramman reip að draga í þessari ríkisstjórn varðandi alvöruaðgerðir til að draga úr losun. Þar af leiðandi tel ég að trúverðugleiki hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar sé í húfi.