135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Margþætt starf er í gangi til að greina leiðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar ber fyrst að nefna nefnd sérfræðinga undir forustu Brynhildar Davíðsdóttur, umhverfis- og auðlindafræðings við Háskóla Íslands, sem hefur verið falið að meta helstu kosti við að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á komandi árum og til lengri tíma. Nefndin á að fjalla um möguleika á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllum helstu geirum, orkuframleiðslu, samgöngum og eldsneytisnotkun, iðnaðarferlum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs. Einnig á að skoða möguleika á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og hugsanlega í jarðlögum eða hafi. Lykilatriði í starfi nefndarinnar er mat á kostnaði og hagkvæmni einstakra leiða. Nefndin skal skila skýrslu til umhverfisráðherra í apríl 2008.

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að meta þróun mála marga áratugi fram í tímann þannig að áherslan hjá nefndinni er að skoða möguleika á aðgerðum sem hafa áhrif til skemmri tíma, þ.e. á næsta áratug eða svo þó svo að einnig sé fjallað um möguleika á tæknilegum lausnum sem gætu haft umtalsverð áhrif síðar.

Í viðbót við þessa sérfræðinganefnd eru að störfum fleiri nefndir innan Stjórnarráðsins. Í fjármálaráðuneytinu er verið að skoða skattlagningu og gjöld á eldsneyti og ökutækjum, í sjávarútvegsráðuneytinu losun í sjávarútvegi og möguleika til að minnka hana. Í landbúnaðarráðuneytinu er starfandi hópur sem hefur farið yfir bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og á vegum iðnaðarráðuneytisins starfar svokallaður vettvangur um vistvænt eldsneyti. Allt þetta starf mun styðja starf sérfræðinganefndar umhverfisráðuneytisins sem ætlað er að hafa heildarsýn yfir málin.

Við vinnum í kapp við tímann í þessum málum því það er ljóst að við þurfum að hafa góðar upplýsingar um möguleika okkar til að standa við framtíðarskuldbindingar, hverjar sem þær kunna að vera. Það skýrist væntanlega í alþjóðlegum samningaviðræðum á næstu tveim til þrem missirum.

Í flestum nágrannaríkjum okkar hefur vinna af þessu tagi þegar farið fram enda búa þær flestar við þær aðstæður að þurfa að draga úr losun strax á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 2008–2012. Hér á Íslandi hafa menn talið að við munum auðveldlega vera innan þeirra marka á því tímabili enda höfum við langrúmustu heimildir sem nokkurt ríki hefur haft, eða hefur, á þessu tímabili. Þær nema 50–60% aukningu frá 1990 ef heimildir innan ákvörðunar 14CP7, stundum nefnd íslenska ákvæðið, eru teknar með.

Ég legg mikla áherslu á að vinna að aðgerðaáætlun til að mæta framtíðarskuldbindingum, ekki bara 15–75% markmiðunum fyrir árið 2050 heldur miklu fremur þeim líklegu skuldbindingum sem verða settar í alþjóðlegum samningum til 2017 eða 2020. Ég legg á það þunga áherslu að það er ljóst að hvað sem allri óvissu líður um framgang þessara samningaviðræðna verður krafan um samdrátt í losun á Íslandi krafan eftir 2012. Við verðum að vera viðbúin að mæta þeirri kröfu.

Á Balí er vonast til þess að ríki heims samþykki umboð til að fara í víðtækar samningaviðræður um nýtt alþjóðlegt samkomulag sem taki við eftir Kyoto-tímabilið. Fáist slíkt umboð á Balí í desember er vonast til að nýtt samkomulag geti litið dagsins ljós á aðildarríkjafundi í Kaupmannahöfn árið 2009. Afstaða Íslands er ljós. Ísland vill að þegar hefjist alhliða samningaviðræður þar sem allir koma að borðinu, bæði stóru þróunarríkin eins og Kína þar sem aukning á losun gróðurhúsalofttegunda er gríðarleg og þau iðnríki sem hafa verið utan Kyoto, þ.e. Ástralía og Bandaríkin. Það kom m.a. skýrt fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra á loftslagsráðstefnu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York í haust.

Á Balí er sem sagt ekki meiningin að ganga frá nýju samkomulagi, við erum ekki komin svo langt í ferlinu, heldur vonast menn til að fá umboð til nýrra samningaviðræðna sem verða bæði víðtækari og beittari en Kyoto. Þar stendur Ísland með ríkjum Evrópusambandsins og fleiri ríkjum.

Það var afstaða Samfylkingarinnar við afgreiðslu frumvarps til laga um losun gróðurhúsalofttegunda síðasta vor að það ætti að vera gjaldtaka fyrir losunarheimildir og það er afstaða mín að það eigi að taka gjald fyrir slíkar heimildir. Það var hins vegar ekki samþykkt og ég stóð frammi fyrir þeirri spurningu í sumar hvort setja ætti bráðabirgðalög fyrir fyrstu úthlutun sem átti að fara fram fyrir 1. október samkvæmt lögunum. Slíkt hefði orkað tvímælis og vafasamt hvort það hefði staðist. Í ljósi reynslunnar af slíkum (Forseti hringir.) úthlutunum hér á landi vildi ég ekki taka þá áhættu að eignarréttur myndaðist.