135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:44]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem hér fer fram. Ég sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hún fór fram að ég óttaðist að ríkisstjórn Íslands kæmi óundirbúin til leiks. Það er ekki síður skoðun mín nú eftir að hafa hlustað á hæstv. umhverfisráðherra fjalla um þessi mál. Það eina sem kom út úr ræðu hennar var að hún teldi að það ætti að mæta kröfum um samdrátt og að allir ættu að koma að borðinu. Auðvitað eiga allir að koma að borðinu. Það er svo augljóst að það er stefna Íslands. Meðan það er ekki eru þessar aðgerðir allar mjög takmarkandi.

Hæstv. ráðherra hefur gefið sig út fyrir að vera einhvers konar andófsmaður í hæstv. ríkisstjórn og það kom fram á umhverfisþingi.

Það er stutt í fundinn á Balí og þess vegna er mjög mikilvægt að þetta sé rætt á hv. Alþingi og reyndar þyrftum við að fara frekar yfir þessi mál síðar. Að sjálfsögðu þurfum við að líta til langs tíma og horfa hnattrænt á hlutina, hnattrænt. Hvers vegna fengum við þetta svokallaða íslenska ákvæði samþykkt á sínum tíma í Kyoto-samkomulaginu? Vegna þess að aðrir umhverfisráðherrar horfðu hnattrænt á hlutina. Nú segir hæstv. umhverfisráðherra að það eigi ekki að hafa neitt fyrir því að berjast áfram fyrir íslenska ákvæðinu, fyrir þessu ákvæði sem er hnattrænt mjög jákvætt.

Ég undrast það ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að standa með henni í því að kasta á glæ þessu ákvæði sem svo mjög var barist fyrir á sínum tíma og er a.m.k. tveggja milljarða virði á ári, í allt líklega einir 10 milljarðar fyrir Ísland. Nú á bara að láta þetta eiga sig að því er mér heyrist á hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að samþykkja hana enda (Forseti hringir.) hefur Samfylkingin hann í vasanum.