135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:46]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvægt mál eins og fram hefur komið hér í umræðum, loftslagsmálin, og fyrir okkur Íslendinga skiptir miklu máli að vel sé haldið á okkar hagsmunum, að sú stefna sem við berum fram á alþjóðavettvangi sé trúverðug og til heilla bæði okkar eigin landi og þegar horft er á stærra samhengi. Ég er þeirrar skoðunar að þannig hafi verið haldið á málum hingað til og ég var afskaplega ánægður með þau ummæli sem komu fram hjá hæstv. umhverfisráðherra um að að sjálfsögðu yrði svo áfram með stefnu Íslands að hún verður mótuð hér á næstu vikum, mánuðum og missirum og síðan verður fast haldið á okkar hagsmunum þegar að því kemur.

Hvað varðar loftslagsmálin almennt liggur fyrir sú stefnumótun að fram til ársins 2050 eigi að reyna að ná niður útblæstri upp að 50–75%. Þetta er gríðarlega metnaðarfullt markmið sem sýnir að okkur er full alvara í þessum málum. Þó ber að hafa í huga að til þess að ná þessu markmiði skiptir mestu máli hversu vel okkur tekst að nýta þær tækniframfarir og þá kunnáttu sem er á markaðnum til að breyta framleiðsluferlinu þannig að þetta markmið náist. Þar skiptir auðvitað miklu máli að horfa til þess að á næstu árum og áratugum eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar, við höfum séð það í bílaiðnaðinum og við sjáum það í áliðnaðinum þar sem menn eru á fullu við að leita leiða til að nota í staðinn fyrir kolefnaskaut keramikskaut sem mun miklu breyta í áliðnaðinum. Svona er hægt að halda áfram og finna endalaust fleiri dæmi um að markaðurinn er að leysa þessi mál og það er þar sem þekkingin liggur.

Það er því sérstök ástæða til að hrósa t.d. forseta Íslands sem hefur lagt sitt af mörkum til að leiða saman einmitt markaðinn, stórfyrirtækin Alcoa og Alcan á fundi í desember á síðasta ári, þar sem kallað er eftir samstarfi stórfyrirtækja, háskólastofnana, ríkisvaldsins og annarra til að leita leiða, (Forseti hringir.) ekki til að nálgast þau með boðum og bönnum heldur til að virkja markaðinn til að finna skynsamlega lausn.