135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:51]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Loftslagsbreytingarnar eru áreiðanlega eitt þýðingarmesta viðfangsefni þjóða heims um þessar mundir og það er að sjálfsögðu brýnt fyrir okkur á Íslandi að taka á þeim eins og fyrir allar aðrar þjóðir. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta er alþjóðlegt viðfangsefni og mikilvægt að við tökum þátt í alþjóðaskuldbindingum í því sambandi.

Að sjálfsögðu hljótum við að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að standa undir framtíðarskuldbindingum Íslands, líka eftir að því tímabili lýkur sem nú er í gangi. Ég hef ekki heyrt nein svör frá hæstv. umhverfisráðherra hvað það snertir. Hæstv. umhverfisráðherra hefur gefið út áherslur sínar í umhverfismálum, m.a. að því er varðar loftslagsbreytingar. Það var athyglisvert að hún lýsti því á nýafstöðnu umhverfisþingi að hún væri eins konar andófsmaður í ríkisstjórn. Það vekur upp spurninguna um það hvort hæstv. umhverfisráðherra sé ein í ríkisstjórninni um að hafa áhyggjur af loftslagsmálum, hvort hæstv. umhverfisráðherra sé ein að berjast á móti öllum öðrum ráðherrum í þessum málaflokki. Það er, ef svo er, grafalvarlegt mál vegna þess að þetta er viðfangsefni ríkisstjórnarinnar allrar, að sjálfsögðu, og hún á öll að hafa áhyggjur af því hvernig þessum málum er háttað.

Í þeim áherslum sem hjá hæstv. umhverfisráðherra koma fram eru ágæt markmið í sjálfu sér að mörgu leyti en við hljótum að spyrja hvernig ráðherrann hyggist t.d. efla almenningssamgöngur, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu sem sérstaklega er vikið að hér í áherslum hennar. Hér liggja fyrir þingmál sem m.a. lúta að því að efla almenningssamgöngur og verður fróðlegt að sjá hvaða framgang þau fá. Hvaða markmið ætla menn að setja sér um minnkun? Það stefnir raunar í það núna að við setjum Evrópumet í aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda og menn hljóta að spyrja sig t.d. hvort þær virkjanir sem verið er að ræða um í Þjórsá séu liður í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hvaða markmið hefur hæstv. ráðherra fyrir næsta tímabil og hefur kannski hvarflað að hæstv. ráðherra að nýta ekki til fulls allar heimildir Íslands? Væntanlega er þar um að ræða hámarksheimildir? Það eru engar skyldur til þess að nýta allar (Forseti hringir.) þær heimildir sem menn hafa.