135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:55]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alltaf svolítið skrýtið að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar koma hér upp í pontu eftir orð hans í sumar um að kosningaloforð Samfylkingarinnar væru dauð og ómerk þar sem hún hefði farið í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er einfaldlega þannig sem maður hefur á tilfinningunni að staðan sé í þessum umhverfismálum.

Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að það sé afar brýnt að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum og það er ljóst að á undanförnum árum hefur Ísland verið í fararbroddi í þeim málaflokki. Ég held að það sé t.d. mjög brýnt að skoða hvaða orkugjafa við notum á bíla og framsóknarmenn hafa barist fyrir því og stutt af alefli að lækkaðir séu tollar og vörugjöld af bílum sem nota orkugjafa eins og metan og vetni.

Í bæklingnum sem hæstv. umhverfisráðherra lagði fram á umhverfisþinginu um daginn kom fram að nú á að stórefla starf í umhverfismálum og vinna ítarlega áætlun um hvernig Ísland geti staðið að væntanlegum framtíðarskuldbindingum og alþjóðasamningum á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Þetta eru stór orð en aftur á móti lýsi ég miklum áhyggjum af því að svo virðist sem hugur fylgi ekki máli. Hvergi hafa komið fram tölusett eða tímasett markmið um hvernig eigi að standa að þessum málum. Þá lýsi ég líka miklum áhyggjum af því að þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar umhverfisráðherra um að efla samstarf við sveitarfélög og frjáls félagasamtök á sviði náttúru- og umhverfisverndar eru engar hækkanir á fjárframlögum til þessa málaflokks. (Forseti hringir.) Það er undarlegt í ljósi hins stórbætta hags ríkissjóðs.