135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:58]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún muni beita sér fyrir því að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum og einnig að gerð skuli áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er að sjálfsögðu í fullu samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum sem var birt 15. febrúar sl. Einnig er yfirlýsingin í samræmi við stefnumörkun um sjálfbæra þróun frá árinu 2002 þar sem m.a. er gert ráð fyrir að notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi verði orðin óveruleg árið 2030.

Virðulegi forseti. Stefnumörkun í loftslagsmálum er góðra gjalda verð og afar mikilvæg, en henni verður að fylgja eftir með aðgerðum og það hefur ríkisstjórnin gert. Markviss vinna er í gangi í ráðuneyti umhverfismála til að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem birtast í stefnumótun ríkisstjórnarinnar og einnig eru í gangi aðgerðir í öðrum ráðuneytum og á fleiri sviðum. Ég ætla að stikla á stóru vegna tímatakmarkana og vil nefna sérstaklega tvær nefndir sem eru að störfum.

Sú fyrri er 10 manna vísindanefnd umhverfisráðuneytisins um loftslagsbreytingar undir forustu Halldórs Björnssonar haf- og veðurfræðings. Nefndinni er ætlað að meta áhrif loftslagsbreytinga á komandi áratugum og skila skýrslu til ráðherra í apríl 2008. Í vinnu sinni byggir nefndin á rannsóknum og skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og er nefndin í nánu sambandi við samráðsnefnd ráðuneyta um loftslagsbreytingar sem er samræmingaraðilinn.

Hina nefndina hefur hæstv. ráðherra þegar nefnt en það er fimm manna aðgerðanefnd undir forustu Brynhildar Davíðsdóttur, dósents við Háskóla Íslands. Þeirri nefnd er ætlað að gera raunhæfar tillögur um hvað hægt er að gera á Íslandi til skemmri og lengri tíma til að mæta stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðgerðanefndin mun skila skýrslu um svipað leyti og (Forseti hringir.) vísindanefndin, í lok mars 2008. Þar er gert ráð fyrir tillögum um aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég er þess fullviss að við verðum í forustu í loftslagsmálum í framtíðinni.