135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[14:00]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig að hæstv. umhverfisráðherra lagði megináherslu á það í máli sínu áðan að við værum í kapphlaupi við tímann og þannig hefur það gjarnan verið að mannkynið hefur talið að það væri jafnan í kapphlaupi við tímann þegar um væri að ræða annars vegar náttúruauðlindir og hugsanlega mengun hvort heldur loftmengun eða annað. Þannig spáðu menn því árið 1860 að olía yrði upp urin 15 árum síðar sem ekki varð og árið 1970 töluðu menn um að við værum að fara úr hlýskeiði og yfir í ísöld en síðan hafa menn breytt um skoðun. En hvað svo sem því veldur eða líður þá erum við væntanlega öll sammála um að leyfa náttúrunni að njóta vafans og gera þær nauðsynlegu ráðstafanir til að við getum búið hér áfram og skilað þessu landi, okkar umhverfi og þessum heimi betri hvað varðar náttúru og náttúruauðlindir til komandi kynslóða heldur en þegar við tókum við þeim.

Hæstv. umhverfisráðherra segir að við séum í kapphlaupi við tímann og nefndi þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í því sambandi, en þær voru þessar að skipuð hafi verið nefnd sérfræðinga sem á að skila af sér í apríl árið 2008. Skipuð hefur verið nefnd. Í öðru lagi er unnið að aðgerðaáætlun og í þriðja lagi er stefnt að því að á ráðstefnu í Balí verði fengið umboð. Það var nú ekki mikið meira sem var upp úr því að hafa frá hæstv. umhverfisráðherra hvað um væri að ræða.

En það er nú þannig að þessi mál virðast vera komin töluvert skemmra á veg og það er nú einhvern veginn þannig að það er töluvert annað að horfa á hvernig ríkisstjórn Íslands bregst við en til dæmis Evrópusambandið gerði á sínum tíma undir forsæti Angelu Merkel þegar það tók djarfa ákvörðun um að leyfa náttúrunni að njóta vafans og það á íslenska ríkisstjórnin að gera líka.