135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[14:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra við spurningum mínum og vil segja það um þau að þau staðfesta auðvitað það sem ég hef haldið fram, að við sitjum afar aftarlega á merinni varðandi tímaáætlunin okkar varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það á eftir að verða mjög erfitt fyrir okkur að gera eitthvað sem marktækt verður. Árið 1992 var loftslagssamningurinn samþykktur og 1997 var Kyoto-bókunin samþykkt. Núna fáum við að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra að það verði í apríl 2008 sem nefndin sem skipuð hefur verið komi til með að skila af sér tillögum um aðgerðir til að draga úr losun. Þetta er mjög alvarlegt og sökin er ekki öll þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Sökin er þeirrar ríkisstjórnar sem sat áður ekki síður og jafnvel enn frekar.

Sannleikurinn er sá að við erum mjög aftarlega á merinni með að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að draga úr losun. Í dag losum við 12 tonn á mann á meðan Evrópusambandið er komið niður undir 11 tonn, þ.e. við erum yfir Evrópumeðaltalinu og þegar álverið á Reyðarfirði hefur verið gangsett þá losum við 17 tonn á mann þannig að við erum enn að auka losunina. Aðgerðirnar sem á að grípa til kannski einhvern tíma eftir 2008 koma því allar allt of seint. Ég verð líka að segja til marks um það að þessi hæstv. umhverfisráðherra sem er vel meinandi og hefur ákveðinn vilja sem hún hefur talað fyrir á eftir að eiga við ramman reip að draga í þessari ríkisstjórn. Til marks um það eru aðfaraorð hennar í þessum ágæta bæklingi sem fjallar um áherslur hennar í umhverfismálum á þessu kjörtímabili. Þar kemur fram að hún getur ekki talað fyrir neinu öðru en því að fólkið í landinu þurfi að bera ábyrgð. Hún talar ekki enn þá fyrir neinum aðgerðum sem ríkisstjórnin ætlar að taka ábyrgð á og það er miður og því verður að halda áfram að brýna hana.