135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að hugmyndinni um matvælaráðuneyti hafi verið hafnað en það má alltaf láta á það reyna með formlegum hætti og væri t.d. hægt og gaman bara að fá það staðfest með höfnun, t.d. í atkvæðagreiðslu á hv. Alþingi. Við sjáum til hvort það verður tilefni til þess að láta á það reyna. En engu að síður vil ég bara segja, vegna viðbragða hæstv. forsætisráðherra, að ég þakka fyrir þau.

Ég spyr samt enn um málefni aldraðra, í tengslum við þá umfjöllun sem er um verkaskiptingu milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Hafa þau komið sérstaklega til umfjöllunar?

Hvað snertir kostnaðinn þá er það rétt að ég tel að sameining málaflokka geti leitt til hagræðingar og sparnaðar á vissum sviðum en þær geta líka haft í för með sér verulegan kostnaðarauka, ekki síst á því tímabili sem í hönd fer þegar menn ganga í gegnum endurskipulagningu og breytingar. Þá er ekkert ósennilegt að af því leiði einhvern kostnaðarauka og við sjáum ekki hagræðinguna fyrr en á síðari stigum. Þess vegna væri eðlilegt að menn veltu því fyrir sér hvort kostnaðarauki verði sem þyrfti að gera ráð fyrir í fjárlögum. Öll viljum við að sjálfsögðu að gert sé ráð fyrir fjárheimildum í fjárlögum fyrir fram. Ég minni á að í fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir kostnaðarauka vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið er ekki rekið lengur sem ein heild heldur sem tvær einingar.

Þá spyr maður: Er gert ráð fyrir sparnaði á móti vegna þess að sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti verður slegið saman í eitt ráðuneyti frá og með áramótum?