135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Forseti ávarpaði mig sem hæstvirtan. Ég þakka forseta fyrir ávarpið en það mun duga samkvæmt þingsköpum að segja háttvirtur við þingmenn. Ég biðst þó ekkert undan því að vera ávarpaður hæstvirtur og geri engar sérstakar athugasemdir við ávarpsorð forseta. Þótt þetta sé af minni hálfu kannski í gamni sagt er örlítill alvarlegur undirtónn í máli mínu í ljósi athugasemda sem gerðar voru fyrir hádegið úr forsetastóli mönnum til áminningar um að þingsköpin væru að nokkru leyti orðin fjarlæg fólki í ávörpum og kannski er ekki óeðlilegt að menn ruglist dálítið í því hvernig haga eigi ávörpum miðað við ströng ákvæði þingskapalaga. Ég styð þau sjónarmið, sem komu fram hjá forseta sem var í stólnum í morgun, að rétt væri að fara yfir þessi ákvæði þingskapa og endurskoða þau.

Um þingmálið sem hér er til umræðu má mjög margt segja. Ég vildi kannski segja örfá orð, meira með almennum hætti en sértækum, í 1. umr. um málið.

Í fyrsta lagi finnst mér undirbúningur málsins ekki vera nægilega traustur. Ég ber ekki brigður á að þeir sem undirbjuggu málið við stjórnarmyndunina hafi góða þekkingu á þessu viðfangsefni og hafi vandað sig við verkið. Ég ætla mönnum ekki annað en að hafa staðið vel að því verki miðað við þær forsendur sem þeir höfðu en mér finnst ekki nógu traust að ráða til lykta í breytingum eða skipulagi á stjórnskipun landsins í tveggja manna tali þótt að á bak við séu hópar sem hafi að einhverju leyti komið að því. Mér finnst það ekki vandaður undirbúningur og minna dálítið á þann farveg sem málið var í á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórnin tók málið til sín og fól tveimur ráðherrum, einum úr hvorum stjórnarflokka, að fjalla um breytingar á skipan Stjórnarráðsins og koma með tillögur þar um. Þar var annars vegar þáverandi félagsmálaráðherra og hins vegar dómsmálaráðherra, báðir hæstvirtir. Niðurstaða þeirrar athugunar varð engin vegna þess að það var aldrei neinn gangur í því máli, svo að mér sé kunnugt. Ég þekki það þó að vísu ekki til hlítar en ég held að þessi tveggja manna samtöl þá hafi ekki komist á neitt skrið og málið gufaði upp.

Ég tel að stjórnskipunina þurfi að endurskoða og er algjörlega sammála hæstv. ríkisstjórn í því. Það hefur svo margt breyst í tímans rás og löggjöfin um þetta efni ekki breyst í sama mæli. Orðið hafa almennar þjóðfélagsbreytingar sem kalla á breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins. Ég tel hins vegar að þetta sé býsna flókið verkefni og þurfi töluverðan undirbúning. Mér finnst ég einmitt sjá á frumvarpinu að skort hafi á upplýsingagjöf um afleiðingarnar og að skort hafi á að menn hafi dregið almennar línur um hvernig eigi að skipta verkefnum milli atvinnuvegaráðuneyta og umhverfisráðuneytis sérstaklega. Þess vegna er margt óathugað í þessu máli og hvílir mikil ábyrgð á þeirri þingnefnd sem fær þetta til umfjöllunar að fara vandlega yfir almennar forsendur skiptingar og markalínur á milli ráðuneyta og verkefnaflokka.

Ég tel, virðulegi forseti, of í lagt að við, aðeins 300 þúsund manna þjóð, séum með 12 ráðherra, jafnmarga og í ríkisstjórn Austurríkis, sem mun vera, ef ég man rétt, með um 8–10 milljónir íbúa. Það er reyndar gamalt stórveldi þannig að þeir búa að mjög sterkri stjórnsýsluhefð. Mér finnst það eiginlega of mikið í lagt að skipta þessu upp í 12 ráðuneyti og 12 ráðherra. Mér finnst líka, þegar ég skoða umfangið milli einstakra ráðuneyta, það vera allt of misjafnt.

Ég hef í undirbúningi málsins skoðað skiptinguna eftir fjárveitingum samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Það segir auðvitað ekki alla söguna frekar en í þeim tilvikum er menn skoða eina staðreynd til að meta mál í heild sinni, þá þarf að skoða líka ársverkin, fjölda stofnana og annað sem tengist til að meta umfangið. En þetta er þó bærilegur mælikvarði að ég held. Ég reyndi að gera mér grein fyrir því hvernig fjárlagafrumvarpið mundi breytast miðað við tillögurnar í þessu frumvarpi. Þá sýnist mér að það breyttist ekki mikið í ójafnri dreifingu innan Stjórnarráðsins miðað við umfang hvers ráðuneytis. Minnsta ráðuneytið, forsætisráðuneytið, verður eftir sem áður með um liðlega 1 milljarð kr. í fjárveitingum af um 406 milljörðum kr. sem skiptast á ráðuneytin.

Þótt forsætisráðuneytið sjái um yfirstjórn og samræmingu er það samt ansi lítið ráðuneyti undir heilan ráðherrastól. Ég hefði talið að hjá fámennri þjóð ættu menn að nýta betur starfskrafta þeirra sem sitja í forsætisráðuneytinu en raun ber vitni. Sannast sagna held ég að verkefni forsætisráðherrans sem ráðherra séu ákaflega fá og þetta sé ekki nema hlutastarf ef út í það er farið. Verkefni hans liggja að nokkru leyti á öðru sviði, sem forsætisráðherra, ég skal ekki leggja dóm á hve umfangsmikið það er, ég treysti mér ekki til þess. En þar er ákaflega umfangslítið ráðuneyti satt að segja og ég hefði freistast til þess að færa einhver verkefni undir það ráðuneyti líka.

Við erum með viðskiptaráðuneyti sem er mjög lítið, jafnvel eftir breytinguna. Mér finnst það í raun vera miklu minna en efni standa til því að eitt af því sem hefur breyst í þjóðfélagsgerðinni á síðustu áratugum er að viðskiptasviðið er miklu umfangsmeira hvað varðar löggjöf og leikreglur en t.d. atvinnuvegaráðuneytin, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Við þurfum því að leggja töluvert til viðskiptaráðuneytisins þannig að það sé öflugt í að fylgjast með þróuninni í viðskiptalífinu og vera tilbúið að koma nægilega snemma fram með tillögur um breytingar á leikreglum og vera síðan nægilega öflugt líka sem eftirlitsaðili. Ég held að viðskiptaráðuneytið ætti að vera eitt af veigameiri ráðuneytum í nútímaþjóðfélagi.

Sama má segja um umhverfisráðuneytið. Ég tel það eitt allra mikilvægasta ráðuneytið í dag. Mikið ríður á að auðlindir lands, sjávar og reyndar lofts séu nýttar og meðhöndlaðar þannig að ekki sé gengið á þær eða þeim spillt af þeim sem á vettvangi eru á hverjum tíma.

Ég hef á mörgum þingum flutt frumvarp um að efla umhverfisráðuneytið, fyrst á 122. löggjafarþingi þar sem ég flutti frumvarp ásamt Hjörleifi Guttormssyni um breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuvega, um að flytja rannsóknarþátt og ákvörðun um nýtingu og skipulag frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytum yfir til umhverfisráðuneytis. Með þeim breytingum hefðu Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins flust til þess ráðuneytis.

Þau frumvörp sem ég hef flutt um þetta efni endurspegla áherslurnar á verkefni umhverfisráðuneytisins. Ég met þetta frumvarp í því ljósi og get í aðalatriðum tekið undir þær breytingar sem þar er lagt til um verkefni og stöðu umhverfisráðuneytis. Ég tel þó að skoða þurfi aðeins betur skógræktina því að það skiptir máli hvort litið er á hana sem atvinnuveg. Því ef svo er ætti hún auðvitað að heyra undir viðkomandi atvinnuvegaráðuneyti. En sé litið á skógræktina sem umhverfismál, landbætur og annað slíkt, þá kemur til álita að sú starfsemi falli undir umhverfisráðuneytið. Þetta þarf að skoða aðeins nánar í meðförum þingsins, skilin þar á milli. En rannsóknarþátturinn og nýtingarþátturinn ætti að vera í umhverfisráðuneytinu og ég tek undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu hvað það varðar.

Ég tel líka skynsamlegt að skipta heilbrigðismálunum og tryggingamálunum upp milli tveggja ráðuneyta og það er í takt við sjónarmið sem ég hef áður sett fram út frá þeirri reynslu sem ég hef fengið af þessum málum, m.a. með því að starfa í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.

Ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við að færa sveitarstjórnarmálin frá félagsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytis. Það er þekkt erlendis að vista saman samgöngumál og sveitarstjórnarmál, stundum undir nafninu innanríkisráðuneyti og þá er eftir atvikum bætt við fleiri verkefnum, t.d. hluta af löggæslunni. Mér finnst þetta ekki neitt ágreiningsefni. Menn geta auðvitað skipað þessu með öðrum hætti en þetta er út af fyrir sig ágæt niðurstaða. Ég sé ekki nein vandkvæði á að gera slíkar breytingar. Aðalatriðið er að ráðuneytin verði sæmilega öflug, verkefnaskiptingin skýr og eftir almennum reglum sem í er innra samræmi og ráðuneytin séu ekki of mörg.

Ég hefði talið nægilegt að vera með átta ráðuneyti og átta ráðherra. Það væri nokkurn veginn við efri mörk þess sem 63 manna þing getur borið. En eftir það eru ráðherrarnir orðnir það margir, að mínu mati, að styrkur þeirra á þinginu er kominn yfir þau mörk sem eðlilegt eða ásættanlegt er.

Í þingræðisfyrirkomulagi þar sem framkvæmdarvald styðst við löggjafarvaldið er auðvitað alltaf skörun og samgangur á milli þessara tveggja valdþátta. En þá skiptir máli að framkvæmdarvaldið sé ekki of sterkt eða yfirgnæfandi í löggjafarþinginu. Það er ansi mikið að af 63 þingmönnum séu tólf ráðherrar. Það er í raun allt of mikið.

Af því ég nefndi Austurríki til viðmiðunar um fjölda ráðuneyta þá man ég nú bara ekki hvað þingmenn í austurríska þinginu eru margir. Ég mundi halda að þeir væru um 200 eða svo. Þar eru um 12 ráðherrar af um 200 þingmönnum, sem er allt önnur staða og allt önnur hlutföll í þingflokkunum, jafnvel inni í stjórnarþingflokki þar sem menn eru kannski með 50–60 þingmenn og fjóra, fimm ráðherra. Hér eru dæmi um allt önnur hlutföll, t.d. hjá Framsóknarflokknum á síðustu árum. Þar hafa verið sex ráðherrar af 12 þingmönnum. Þótt það séu efri mörk þess sem hefur verið í gegnum árin þá er hlutur ráðherra í þingflokkunum allt of stór. Ég tel það kunni að vera sá vandi sem er þinginu hvað erfiðastur við að glíma af mörgum eðlilegum ástæðum, eins og menn geta kannski ímyndað sér þegar menn hugsa málið.

Fækkun ráðuneyta væri ekki bara til þess að tryggja og ná því markmiði að stærð og umfang ráðuneyta væri svipað, þótt ekki geti allt verið jafnstórt og jafnumfangsmikið. En ráðuneytin hefðu svipað umfang og jafnframt næðist það markmið að styrkja stöðu þingsins og tryggja betri umfjöllun og meðferð á stjórnarfrumvörpum í sölum Alþingis og þingnefndum. Það held ég reyndar að væri mikilvægari árangur, satt að segja.

Mér sýnist t.d. að sex minnstu ráðuneytin, eftir þessar breytingar, sem mundu verða forsætisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og sameinað landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, séu samanlagt með um 43 milljarða kr. fjárveitingar, sem er minna en t.d. samgönguráðuneytið eitt er með, sem hefur um 53 milljarða. Stærðin er svo feiknalega ólík í þessari skiptingu á verkefnum milli ráðuneyta. Það er varla hægt að una við það skipulag til frambúðar og ég hvet til þess að þingheimur taki þetta mál, ekki bara til vinsamlegrar meðferðar í störfum þingsins og til afgreiðslu, upp í heild sinni og gefi sér tíma, hvort heldur við afgreiðslu á þessu máli eða þá öðru máli síðar til þess að ná samkomulagi og leggja fram viðameiri breytingar á skipan Stjórnarráðsins sem ná mundu fram þeim markmiðum sem ég nefndi.

Ég heyrði ræðu fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Honum var sárt um meðferðina á landbúnaðarráðuneytinu. Ég held að það sé ekki hægt að slá höfðinu við steininn og berjast fyrir óbreyttri stöðu hvað það varðar. Það er löngu tímabært að breyta stöðu atvinnuvegaráðuneytanna. Hins vegar vil ég segja að honum tókst vel upp í sinni tíð að gæða landbúnaðinn nýjum krafti og fram komu margar nýjar greinar innan landbúnaðarins. Landbúnaðurinn sem atvinnugrein tók miklum framförum í hans tíð. Það er eðlilegt að ráðherranum fyrrverandi þyki sem breytingarnar geti torveldað áframhaldandi þróun þótt ég vilji ekki leggja dóm á það.

Ég get að mörgu leyti tekið undir áhyggjur hans af stöðu háskólastofnana sem hafa heyrt undir landbúnaðarráðuneyti og ég er sannfærður um, eftir að hafa fylgst með uppbyggingu háskólastarfseminnar bæði á Hólum og Hvanneyri, að gríðarlegar framfarir hafa orðið í þeim skólum á undanförnum árum, m.a. fyrir áhuga þeirra og atorku sem eru í atvinnugreininni, en ekki hvað síst fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem hafði mikinn áhuga og metnað á þessu sviði og dreif það skólastarf áfram. Ég er alls ekki viss um að uppgangur og framfarir í þessum skólum hefðu orðið slíkar undir stjórn menntamálaráðuneytisins eða núverandi menntamálaráðherra. Með því legg ég ekki neitt illt til ráðherrans. Ég held bara að áhugasvið núverandi menntamálaráðherra liggi ekki jafnákveðið á þessu sviði og áhugasvið fyrrverandi landbúnaðarráðherra.

Ég verð þó að viðurkenna að það er erfitt að ganga gegn þeim sjónarmiðum að háskólastofnanir séu menntamál og eigi að heyra undir menntamálaráðuneyti. Ég tel að menn verði að viðurkenna sem almenna línu í þeim efnum þótt það sé eins og annað ekki án undantekninga um lengri eða skemmri tíma.

En virðulegi forseti. Frjálslyndi flokkurinn tekur þessu frumvarpi almennt af velvild, samkvæmt þeirri afstöðu sem ég hef lýst, en áskilur sér rétt til að fara yfir einstök ákvæði frumvarpsins í nefnd sem þarfnast eðlilega betri athugunar við en þau fengu við undirbúning málsins.