135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi verið ágætar ábendingar hjá hv. þingmanni. Ég tel að hann ætti einmitt að nýta sér stöðu sína til vinna máli sínu fylgi á þingi og inni í þingnefndinni. Þetta er eitt af þeim málum sem þingnefndin þarf að fara ofan í, bæði hvað varðar skilin á milli landbúnaðar og umhverfisráðuneytis og sérstaklega skilin á milli rannsókna og annarra þátta, hvar þau eigi að liggja, hvort rannsóknirnar heyri undir menntamálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti eða hjá einstökum atvinnuvegaráðuneytum. Það er verkefni sem mikilvægt er að vanda til. Ég heyri að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur ýmislegt þar til málanna að leggja sem örugglega verður hlustað á þegar farið verður í málið í þingnefndum.