135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslna verkefna innan Stjórnarráðsins. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra heyri mál mitt og geti svarað þeim spurningum sem ég ber fram, herra forseti.

Þetta er heilmikill bandormur eins og ítarlega hefur verið rakið, miklar tilfærslur á milli ráðuneyta og raunar stofnuð ný ráðuneyti. Fjallað hefur verið um hvernig eigi að flytja sveitarstjórnarmál til samgönguráðuneytis, færa það frá félagsmálaráðuneytinu. Það hefur verið rakið hvaða verkefni eigi að færa til umhverfisráðuneytisins frá öðrum ráðuneytum, hvernig eigi að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp og að færa eigi ferðamál undir iðnaðarráðuneytið o.s.frv. Ætlunin er að flytja marga stóra málaflokka til á milli ráðuneyta. Einn stærsti þátturinn er breytingarnar á landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti þar sem þau eru lögð niður sem eiginleg atvinnuvegaráðuneyti og færð í eina stjórnsýslueiningu með tilheyrandi breytingum.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir gagnrýni á undirbúning þessa máls. Að gera svo veigamiklar breytingar án samráðs innan þingsins við hlutaðeigandi alla stjórnmálaflokka og keyra málið svona í gegn með hraði eins og hér er gert, eins og boðað var í sumar, er ekki góð stjórnsýsla og reyndar slæm. Það er ekki þannig að óskaplega mikið sé í húfi sem komi í veg fyrir að vinna þessi mál vel. Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, komu sér saman um að mynda stjórn og svo var mikill ákafinn og daðrið að þetta hefði verið hægt að vinna þokkalega. Það finnst mér ekki hafa verið gert.

Ég vil benda á að nú er kominn 18. október, herra forseti, og fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram þar sem nánast hvergi er komið inn á þær breytingar sem hér eru lagðar til og við ætlum svo að afgreiða fjárlög vitandi um hinar gríðarmiklu breytingar sem lagðar eru til á stjórnsýslunni sem eiga að taka gildi frá næstu áramótum. Mér finnst þetta reyndar út í hött. Ég tel afar brýnt að meiri tími gefist til að vinna þetta með eðlilegum hætti frekar en keyra það áfram óunnið. Þetta sýnir vanvirðu gagnvart þeim verkefnum sem eru vistuð hjá viðkomandi stofnunum, að telja að hægt sé að rokka þeim til fyrirvaralaust og án forsjár.

Eitt hefur að vísu verið gert, sem er mjög athyglisvert. Það eina sem ég man eftir að nefnt væri í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalagafrumvarpinu varðandi breytingarnar er að gert er ráð fyrir á fjárlögum að viðskiptaráðuneytið fari úr 25,4 millj. kr. vegna uppskiptingarinnar og það fái til viðbótar 36,8 millj. kr. á árinu 2008. Iðnaðarráðuneytið fái rúmar 15 millj. kr., þannig að bara uppskiptin á ráðuneytinu, það sem fer beint inn á aðalskrifstofuna, nemur um 80 millj. kr. á einu ári. Það er það eina sem tilgreint er. Hins vegar segir í frumvarpinu, í umsögn frá fjármálaráðuneytinu, að þessar miklu stjórnsýslubreytingar eigi vart neitt að kosta.

Ég verð áður en ég kem að öðrum efnisþáttum, herra forseti, að gagnrýna umsögn fjármálaráðuneytisins. Fjármálaráðuneytinu ber að meta kostnaðinn við þær lagabreytingar sem lagðar eru fram. Hér eru umfangsmiklar lagabreytingar lagðar fram án þess að viðhlítandi kostnaðarmat fylgi. En þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs.“

Hver trúir þessu og hvað halda menn að sé vönduð vinna á bak við þessa umsögn fjármálaráðuneytisins og hér er sagt áfram:

„Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega.

Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir að þessar miklu stjórnlagabreytingar hafi neinn sértækan kostnað í för með sér. Hvort sem maður er sammála þessum breytingum eða ekki þá finnst mér þetta óábyrg afgreiðsla af hálfu fjármálaráðuneytisins í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið. Ég bendi á að nú þegar liggur fyrir tillaga um 80 millj. kr. til að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvö ráðuneyti. (Forsrh.: Það er ekki í þessu frumvarpi.) Herra forseti. Það er ágætt að hæstv. forsætisráðherra kveinki sér undan þessu. Það er alveg rétt. En þetta er kostnaðurinn við þessar breytingar sem hérna er verið að leggja til. (Forsrh.: Ekki í þessu frumvarpi. Það var stjórnarfrumvarpið í vor.) Þetta er ekki alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Hér er einmitt kveðið á um tilfærslurnar á milli ráðuneyta. Hérna er tekið til hvaða verkefni eigi að fara til iðnaðarráðuneytisins og hvaða verkefni eigi að fara til viðskiptaráðuneytisins. Þetta er einmitt tíundað hér þótt það sé alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ákvörðunin um að láta tvo ráðherra skipta ráðuneytinu á milli sín hafi verið tekin í vor. En það er hluti af þessum breytingum hér, a.m.k. er ekki færður neinn sparnaður á móti af því að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið í eitt ráðuneyti. Sjá menn það einhvers staðar í frumvarpinu? Það sé ég ekki.

Ég bara bendi á hversu óvönduð vinnubrögðin eru, ég tel ámælisvert hversu málið kemur óvandað inn og hve hratt á að afgreiða það. Það væri eðlilegt að gefa sér tíma út næsta ár til að fara yfir þetta mál.

Þau atriði í þessu frumvarpi sem ég vil fyrst og fremst staldra við varða landbúnaðarráðuneytið, breytingar á því og tilfærslur þar og reyndar á sjávarútvegsráðuneytinu líka. Við finnum alls staðar í samfélaginu að dreifbýlið, að atvinnugreinar og samfélög þar, á undir högg að sækja í stjórnsýslunni. Við finnum það iðulega í þeim málum sem fyrir þingið koma. Það þarf ekki að koma á óvart í þeirri þróun að sjá að eitt fyrsta mál ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skuli ganga út á að lama ráðuneyti þessara atvinnugreina, draga úr þeim tennurnar og færa frá þeim verkefni sem hafa verið hefðbundin. Það þarf ekki að koma á óvart hjá þessum flokkum sem hafa haft það á stefnuskrám sínum að innleiða þá tegund af frelsi að það geti haft varanlegt tjón fyrir þær atvinnugreinar.

Hér er t.d. gert ráð fyrir að frá landbúnaðarráðuneytinu verði fluttar stjórnsýslueiningar sem lúta að kennslu, rannsóknum og ráðgjöf. Ég hef starfað innan þessara greina alllengi og þekki þær mjög vel. Það hefur verið lagt upp sem grundvallarsjónarmið í uppbyggingu á rannsóknum, kennslu og ráðgjöf í landbúnaði að þetta væri samtvinnað og í nánum tengslum við viðkomandi atvinnuvegi. Eftir þeirri stefnu hefur verið unnið frá því 1980, frá því ég kom að þessu hefur verið unnið að því að þetta skuli samþætt og náin tengsl vera við atvinnugreinarnar. Sérstaklega á þetta við um landbúnaðinn. Búnaðarskólarnir hafa verið flaggskip landbúnaðarins. Rannsóknastofnanir landbúnaðarins hafa sinnt rannsóknum en þær hafa einnig tengst búnaðarfræðslu þannig að þar hafa sameinast rannsóknir, ráðgjöf og kennsla. Það hefur gefist mjög vel.

Ég minnist þess að árið 1978 og 1979, á þeim árum er fjölbrautaskólarnir komu til, var einmitt gerð hörð hríð að landbúnaðarskólunum og átti að leggja þá niður. Talað var um að færa þá inn í fjölbrautaskólana. Í þeirri hrinu var m.a. Hólaskóla lokað. Hólaskóla er lokað 1979 og gert ráð fyrir að verkefni þess skóla yrðu færð inn í fjölbrautaskóla. Sem betur fer var tekin sú pólitíska ákvörðun að endurreisa Hólaskóla 1981. Margir segja að það hafi verið eitt af merkustu verkefnum þáverandi ríkisstjórnar, undir forustu Gunnars Thoroddsens. Hann gerði það að hluta af stjórnarsáttmála sínum þá að endurreisa Hólaskóla. Það má vel vera að það hefði ekki gerst ef Gunnar Thoroddsen hefði ekki komið til, ég skal ekki segja um það. Allar götur síðan hafa menn spurt: Geta þessir skólar starfað sjálfstætt? Verður ekki að færa þá undir einhverja aðra stofnun? Verður ekki að færa þá undir Háskólann á Akureyri o.s.frv.?

Árið 1999, þegar sett voru lögin um búnaðarfræðslu sem við nú störfum eftir, kom hörð hrina, þá átti líka að færa landbúnaðarskólana undan landbúnaðarráðuneytinu og undir menntamálaráðuneytið. Ég minnist þess í þeirri hrinu að við skólastjórar og forstöðumenn þessara stofnana, Landgræðslu, Skógræktar og búnaðarskólanna, gengum á fund þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, og báðum hann ásjár og spurðum hvort þetta væri eitt brýnasta málið, að færa þessa skóla undir annað ráðuneyti. Þá spurði þáverandi forsætisráðherra okkur þeirrar eðlilegu spurningar: Hvað hafa þessir skólar verið lengi undir atvinnuvegaráðuneytinu? Jú, í 100 ár. Hefur það sýnt sig að valda skólunum erfiðleikum? Nei, það hefur ekki sýnt sig. Eiga þessir skólar í einhverjum vandræðum núna með starfsumgjörð sína? Nei, alls ekki, á engan hátt. Er eitthvað sem hamlar því að þeir geti haldið áfram að þróast eins og þeir eru nú? Nei, það var ekkert sem gat hamlað því.

Þá man ég eftir því á þessum ágæta fundi með þáverandi forsætisráðherra að hann sagði: Eru þá einhver rök fyrir því að fara að flytja þá til? Þar með var það mál afgreitt. Ég get ekki séð annað en að nú sé nákvæmlega sama staða uppi. Þessir skólar, þessar menntastofnanir landbúnaðarins hafa vaxið og dafnað, þær hafa mjög öflug tengsl við atvinnuveginn, njóta styrks hans. Ég þekki hvernig námið hefur verið byggt upp á Hólum í mjög nánu samráði við atvinnuveginn, miklu nánara en nokkurt annað nám í landinu hefur gert. Þegar við höfum reynt að hjálpa menntamálaráðuneytinu við að koma upp starfsnámi sem gæti á einhvern hátt verið í líkingu við það sem byggt hefur verið upp í þessum skólum hefur það verið mjög torvelt vegna þess að ráðuneytið hefur ekki viljað meta starfsnámið með sama hætti og bóklegt nám. Þannig er þetta enn.

Ég sé síðan í þessum kafla, í þessu frumvarpi, að það er nánast ekkert minnst á Hólaskóla. Ég verð að segja, herra forseti, að það að tókst að endurvekja Hólaskóla og með þeirri reisn sem hann hefur síðan starfað er stórmerkilegt mál fyrir þjóðina alla, ekki bara fyrir Skagafjörð. Ég er þess fullviss af minni reynslu eða a.m.k. séu mjög sterkar líkur til þess að ef skólinn hefði ekki notið þeirrar sérstöðu sem hann hafði og hann hefur notið, að vera undir öðru ráðuneyti, væri hann ekki til með þeim hætti sem hann nú er. Þetta eru ekki bara skólar, þetta eru menningar- og menntasetur viðkomandi héraða og staða þeirra sem slík eru rökin fyrir því að þar er einmitt þessari starfsemi haldið úti.

Ég vil því spyrja áður en ég lýk þessu máli með skólana: Getur hæstv. forsætisráðherra gefið þá yfirlýsingu hér að Hólaskóli fái áfram að njóta sjálfstæðis síns og vera sjálfstæður skóli en verði ekki settur undir aðra stofnun? Þær raddir eru þegar uppi að nota eigi þetta tækifæri til að setja t.d. Hólaskóla undir Háskólann á Akureyri eða Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég held að það sé grundvallaratriði, hvort sem það ógæfulega spor verður stigið að Hólaskóli fari undir annað ráðuneyti eða ekki — við erum með eitt stjórnvald sem skipt er í ráðuneyti þannig að það er þingið sem ræður endanlega hvað það varðar — að nálgast þetta mál af fullkomnum heiðarleika og þar með gefi menn hér þá yfirlýsingu ef þeir ætla að halda áfram þessari vegferð sem engin rök eru fyrir. Ég vitna þar aftur til góðs fundar með fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, þar sem hann sagði að það þyrftu að vera rök fyrir því þegar menn breyttu einhverju sem gengið hefði vel árum og áratugum saman. Geta menn staðfest að það eigi ekki að hrófla við sjálfstæði og stöðu skólans með því að leggja hann undir einhverja aðra stofnun?

Ég er ekki heldur hrifinn af sjálfseignarstofnunarhugmyndinni. Ég vil að menntastofnanir eins og Hólar í Hjaltadal og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, sem eru ekki aðeins skólar heldur líka mennta- og menningarsetur, eigi að vera á óskoraðri ábyrgð ríkisins. Ef við höfum myndugleika og dug og vilja til að halda slíkum menntastofnunum úti þá gerum við það og það á að vera á ábyrgð okkar allra.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um þetta, mér finnst það skipta miklu máli og ég met yfirlýsingar hans í þeim efnum. Fyrir fjórum árum voru uppi raddir um að færa Hólaskóla undir Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég lagðist gegn því þá og það skiptir máli að það var ekki gert. Ég man að 1999–2000 var lagt til að færa hann undir Háskólann á Akureyri. Skólinn stóð ágætlega eins og hann var og skólinn og staðurinn stendur vel eins og hann er nú og mér finnst mjög mikilvægt að svo verði áfram og menn séu ekki bara út af einhverjum duttlungum um verkefnaskipti á milli ráðuneyta að setja heilu málaflokkana í uppnám þess vegna.

Ég bendi á að margar af stofnunum landbúnaðarins hafa farið í gegnum miklar hræringar á örskömmum tíma. Landbúnaðarstofnun sem var mjög umdeild, hvernig hún varð til, er ekki enn búin að ná fótum eftir að hún var stofnuð með þau verkefni sem henni voru falin eða hún búin að aðlaga sig að þeirri stöðu. Samt á nú að fara að leggja hana niður og færa inn í aðra stofnun. Sama má segja um Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar er nýbúið að gera miklar kerfislegar breytingar og sú stofnun er ekki búin að þekkja sig eða ná þeirri stöðu. Hvernig er staða Garðyrkjuskólans? Í uppnámi. Og svo framvegis. Ekki er enn búið að ná jafnvægi í þeim breytingum sem hafa verið að gerast á undanförnum árum og nú á að fara að setja allt á flot aftur og það eru engar sýnilegar ástæður fyrir því. Væru efnislegar, sýnilegar ástæður fyrir því væri hægt að ræða þær en svo er ekki. Eins og kom fram í ágætu samtali sem ég vitnaði í áðan þá eiga menn ekki að breyta bara af því bara.

Ég hef frekar á tilfinningunni að þetta sé liður í því að veikja stöðu landbúnaðarins, að veikja stöðu frumgreinanna, að veikja stöðu dreifbýlisins með því að vega að þeim stofnunum sem þar hafa staðið og verið flaggskip þeirra atvinnugreina og þess fólks sem býr og deilir kjörum á landsbyggðinni. Ég vil minna á að þráfaldlega hefur verið reynt að koma á fiskvinnsluskóla sem ekki hefur tekist vegna þess að honum var á sínum tíma kippt úr tengslum við sjávarútveginn. Að ætla sér að byggja upp skóla, atvinnulífsskóla, sem er án tengsla við atvinnugreinina er erfitt. Í landbúnaðarskólunum hefur tekist að samþætta rannsóknir, kennslu, leiðbeiningar og mjög nána starfsþjálfun og verkþjálfun við atvinnulífið, miklu betur en hefði gerst við nokkrar aðrar kringumstæður hér á landi. Hvers vegna ættum við vera að rugga því sem vel hefur gengið og taka þar ástæðulausa áhættu?