135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:45]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir prýðilega ræðu. Hún var auðvitað hlaðin tilfinningu því hann er talandi dæmi um það sem ég hef margsinnis nefnt. Hann tók við Hólaskóla á mikilli örlagastundu. Hann reyndist öflugu fólki góður skólastjóri og það ber að þakka. Það var ekki létt verk. Ég veit það og ég veit, sem landbúnaðarráðherra í átta ár, að það hefur ekki verið létt verk að sigla með skólann til nýrrar og nýrrar sóknar. Það hefur ekki verið létt verk undir ríkisvaldinu.

Litlir skólar eiga erfitt. Þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra hygg ég að í báðum þessum háskólum hafi verið 100 manns að námi. Nú hygg ég að þar séu 500 manns. Hólaskóli nær ekki enn þeirri tölu að þar séu 200 nemendur. Það segir mikið því litlir skólar búa ekki yfir þeirri öflugu hagræðingu sem stórir skólar með þúsundir manna hafa. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stefnt er að því að kennsluframlög til landbúnaðarháskólanna verði skilgreind með sambærilegum hætti og framlög til annarra ríkisháskóla.“

Bifrastarmenn gerðu sér grein fyrir því að þeir gætu ekki lifað undir þessu ákvæði. Þeir þyrftu frelsi til að sækja peninga og fá sterka aðila með sér. Þess vegna liggur í þessu falinn eldur og hefst öðruvísi barátta og öðruvísi líf hvað þessa háskóla varðar. Ég hef því nefnt að sjálfseignarformið gæti bjargað slíkum skólum þótt erfitt geti orðið fyrir þá að þróast áfram. Það verður mikil barátta og hún er hafin á nýjan leik, því miður.